Fyrsta fæðingin á eyjunni í tólf ár

Eyjan Fernando de Noronha er þekkt fyrir fallegar strendur og …
Eyjan Fernando de Noronha er þekkt fyrir fallegar strendur og einstakt dýralíf. Af Wikipedia

Íbúar afskekktrar brasilískrar eyju þar sem bannað er að fæða börn fagna fæðingu fyrsta barnsins á eyjunni í tólf ár. 

Á eyjunni Fernando de Noronha búa um þrjú þúsund manns. Þar er engin fæðingardeild og því mega konur ekki fæða þar. Konur sem eiga von á sér er skylt að fara til meginlandsins og fá þar fæðingarhjálp.

En í gær fæddist stúlkubarn á eyjunni. Konan, sem ekki vill láta nafn síns getið, segist ekki hafa vitað af þungun sinni og því hafi fæðingin komið henni algjörlega í opna skjöldu.

Konan er sögð verða 22 ára. „Á föstudagskvöld fékk ég verki og þegar ég fór á salernið þá sá ég eitthvað koma niður á milli fóta minna,“ er haft eftir henni í viðtali á vefsíðunni O Globo. „Þá kom faðirinn inn og tók það upp. þetta var barn, stúlka og ég var steinhissa.“

Barnið var svo flutt á sjúkrahús á eyjunni til skoðunar. 

Stjórnvöld á eyjunni hafa staðfest fæðinguna. „Móðirin, sem vill ekki láta nafn síns getið, fékk hríðir á heimili sínu,“ segir í yfirlýsingu frá stjórnvöldum. „Fjölskyldan segist ekki hafa vitað af óléttunni.“

Eyjaskeggjar leggjast nú á eitt til að hjálpa fjölskyldunni. Hafa þeir m.a. fært henni gjafir, s.s. barnaföt. 

Eyjan Fernando de Noronha er þekkt fyrir sínar fallegu strendur og sitt fjölskrúðuga dýralíf. Þar má m.a. finna sæskjaldbökur, höfrunga og hvali sem og margar fágætar fullategundir. Þar sem náttúra eyjunnar er viðkvæm hafa verið settar takmarkanir á hversu margir mega búa þar.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert