800 veikir og 11 látnir af sveppaeitrun

11 hafa látist af völdum sveppaeitrunar í Íran. Mynd úr …
11 hafa látist af völdum sveppaeitrunar í Íran. Mynd úr safni. Ljósmynd/Halldór Kolbeins

Yfir 800 manns hafa veikst og hið minnsta 11 látist af völdum eitraðra sveppa í tíu mismunandi héruðum í vesturhluta Íran. Samkvæmt fjölmiðlum í Íran er engin meðferð sem virkar gegn þessari tegund eitrunar, en tveir sjúklingar hafa hlotið nýrnaígræðslu. BBC greinir frá.

Sveppirnir sem um ræðir eru sagðir líkjast ætum sveppum og Íranar hafa verið hvattir til þess að kaupa ekki sveppi í lausu heldur aðeins sveppi sem hafa verið innsiglaðir í verslunum.

Algengt er að hægt sé að kaupa sveppi á götum úti í Íran og þekking á ætum og óætum sveppum getur oft verið óáreiðanleg.

Sveppirnir banvænu vaxa villtir í skóglendi í vesturhluta Írans eftir vorrigningarnar. Óvenjumiklar rigningar þetta árið eru jafnvel taldar hafa valdið enn meiri vexti þessara sveppa en ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert