Fórst á Everest

AFP

Japanskur fjallgöngumaður lést á Everest um helgina en þetta var í áttunda skiptið sem hann reyndi að ná á topp hæsta fjalls heims. Í fjórðu tilraun hans, árið 2012, kól hann svo illa að hann missti níu fingur.

Nobukazu Kuriki veiktist á leiðinni upp og hafði ákveðið að snúa til baka þegar leiðangur hans missti talstöðvarsambandið við hann. Þegar þeir sáu ekki lengur höfuðsljós hans var farið að leita að honum og fannst hann látinn skammt frá búðum 2. Kuriki var 36 ára gamall og er dánarorsökin ofkæling. Hann er þriðji fjallgöngumaðurinn sem deyr á Everest í mánuðinum. Yfir 400 fjallgöngumenn hafa aftur á móti náð á toppinn á sama tíma.

Seint í gærkvöldi var Kuriki í 7.400 metra hæð og var staddur á milli þriðju og fjórðu búða. Hann skrifaði á Facebook að hann fyndi fyrir erfiðleikum fjallsins og kvölum en væri enn á uppleið.

Þrátt fyrir að hafa misst níu fingur af tíu árið 2012 þá sneri hann aftur á Everest í september 2015, nokkrum mánuðum eftir að jarðskjálfti í Nepal hafði komið af stað snjóflóði sem kostaði 18 lífið í grunnbúðum Everest. Vegna slæms veðurs varð hann að hætta uppgöngu í það skiptið og reyndi aftur 2016 og 2017 án árangurs.

Framkvæmdastjóri Bochi-Bochi Treks, sem skipulögðu leiðangur Kuriki segir að verið sé að útvega flutning á líki hans til Katmandu. 

Nobukazu Kuriki.
Nobukazu Kuriki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert