Bangsadeilu Svía og Hvít-Rússa lokið

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Hvíta-Rússland hefur skipað fyrsta sendiherra sinn í Svíþjóð í tæp sex ár eftir að deilur komu upp á milli landanna í kjölfar uppátækis þar sem bangsar komu við sögu.

Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, skipaði talsmann utanríkisráðuneytisins, Dmitry Mironchik, sem nýjan sendiherra landsins í Svíþjóð.

Þar með er deilum landanna lokið. Þær hófust í júlí 2012 eftir að hópur sænskra aðgerðasinna varpaði böngsum í fallhlífum yfir Hvíta-Rússlandi með skilaboðum sem fólu í sér boðskap um mikilvægi lýðræðis.

Mironchik sagði við rússneska ríkissjónvarpið að „núna getum við sagt að ísöldin í samskiptum Hvíta-Rússlands og Svíþjóðar hafi loksins endað“.

Lukashenko varð bálreiður eftir að aðgerðasinnunum tókst að fljúga lítilli flugvél inn í hvítrússneska lofthelgi frá Litháen og láta um 800 leikföng falla til jarðar í litlum fallhlífum. Með þeim fylgdu skilti þar sem hvatt var til málfrelsis og mannréttinda.  

Forsetinn, sem hefur verið við völd frá árinu 1994, brást við með því að reka sænska erindreka úr landi og kalla hvítrússneska erindreka frá Svíþjóð. Lukashenko rak einnig utanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, yfirmann landamæra og yfirmann flughersins. Landamæravörður var fangelsaður fyrir að láta ekki vita af flugvél aðgerðasinnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert