Ekki gáfulegt að reyna að „leika á Trump“

Mike Pence og Donald Trump.
Mike Pence og Donald Trump. AFP

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur varað Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, við því að reyna að „leika á“ Donald Trump Bandaríkjaforseta ef þeir hittast í næsta mánuði.

Pence sagði í samtali við Fox News að það væri ekki gáfulegt fyrir Kim að reyna að leika á Trump. Varaforsetinn bætti því við að Trump gæti auðveldlega hætt við fyrirhugaðan fund þeirra 12. júní.

Norður-Kórea hefur hótað því að hætta við fundinn eftir þjóðaöryggisráðgjafi bandaríska forsetans, John Bolton, sagði að það ætti að nýta „líb­ýska líkanið“ við kjarna­vopna af­vopn­un Norður-Kór­eu.

Var Bolton þar að vísa til þess er líb­ýsk stjórn­völd voru feng­in til að hætta við kjarna­vopna­áætl­un sína og í staðinn voru ýmis viðskipta­höft á landið lögð niður. 

Norður-Kóreumenn eru einnig reiðir vegna hernaðaræfinga nágranna sinna í suðri og hafa hætt við fund með Suður-Kóreumönnum vegna þess. Moon Jae-in, forseti S-Kóreu fundar í dag með Donald Trump þar sem fyrirhugaður fundur 12. júní verður meðal annars ræddur.

„Ég held að Trump hugsi ekki um almannatengsl, hann hugsar bara um að ná friði,“ sagði Pence  og bætti við að forsetinn gæti hætt við fundinn með Kim.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert