Henti sér út úr rútu á ferð

Rohingjar eru meðal þeirra sem lagt hafa í hættuför yfir …
Rohingjar eru meðal þeirra sem lagt hafa í hættuför yfir hafið til Ástralíu í leit að betra lífi. AFP

Flóttamaður frá Búrma lést í dag eftir að hafa stokkið út úr rútu á afskekktri eyju í Papúa Nýju-Gíneu, fimm árum eftir að áströlsk yfirvöld sendu hann til eyjunnar. Flóttamaðurinn er úr hópi rohingja en þeir hafa í þúsundavís flúið Búrma síðustu mánuði og ár. 

Stjórnvöld í Ástralíu hafa sent hælisleitendur sem reyna að komast til landsins með bátum í búðir á Manus-eyju í Papúa Nýju-Gíneu á meðan mál þeirra eru til skoðunar. Þeim sem reynast flóttamenn er ekki heimilt að setjast að í Ástralíu. 

Þessari stefnu er ætlað að letja fólk til að leggja í hættuför yfir hafið á litlum bátum til Ástralíu. Hins vegar hafa Sameinuðu þjóðirnar sem og ýmis mannréttindasamtök gagnrýnt aðbúnað í flóttamannabúðum og þann langa tíma sem fólki er haldið þar.

Innanríkisráðuneyti Ástralíu hefur staðfest dauðsfallið en hefur ekki gefið frekari upplýsingar um málið. 

Ian Rintoul, yfirmaður mannréttindasamtakanna Refugee Action Coalition segir að maðurinn heiti Salim hafi verið 52 ára gamall. Hann hafi stokkið út úr rútunni á ferð skammt frá móttökumiðstöð flóttamanna. Hann hafi orðið undir einu dekki hennar og látist.

Flestir flóttamennirnir sem eru á Manus-eyju telja að um sjálfsvíg hafi verið að ræða, að því er segir í yfirlýsingu frá mannréttindasamtökunum. 

Hann er sjöundi hælisleitandinn sem deyr á Manus-eyju frá því að áströlsk stjórnvöld opnuðu þar flóttamannabúðir í byrjun júlí árið 2013. 

„Flóttamaðurinn hafði lengi þjáðst af veikindum,“ segir í yfirlýsingunni. Hann hafði verið sendur til Ástralíu til læknismeðferðar en svo sendur aftur til búðanna á Manus-eyju. 

Ástölsk stjórnvöld þurftu að loka Manus-búðunum á síðasta ári í kjölfar þess að dómstóll á Papúa Nýju-Gíneu komst að því að þær stæðust ekki stjórnarskrá. Þá voru 600 flóttamenn sem þar dvöldu sendir til annarra búða. Enn eru þó hundruð manna enn á eyjunni og hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna m.a. gagnrýnt það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert