Sonurinn dæmdur til að flytja að heiman

Michael Rotando, þrítugur sonur hjónanna Christina og Mark, borgar hvorki …
Michael Rotando, þrítugur sonur hjónanna Christina og Mark, borgar hvorki leigu né hjálpar til við húsverkin. Hann neitar að flytja að heiman og hafa foreldrarnir því gripið til þess ráðs að fara í mál við soninn. Ljósmynd/Google maps

Hæstaréttardómari í New York hefur úrskurðað að þrítugur maður sem býr í foreldrahúsum verði að flytja að heiman. Michael Rotando, sonur hjónanna Christinu og Marks Rotando, flutti aftur í heimahagana fyrir átta árum þegar hann missti vinnuna. Foreldrum hans fannst hins vegar nóg komið, Michael borgar hvorki leigu né hjálpar til við húsverkin. Þau gripu því til þess örþrifaráðs að lögsækja soninn. 

Foreldrarnir, Christina og Mark, þrá að búa ein í húsi sínu í Camillus í nágrenni við borgina Syracuse í New York-ríki. Michael segir hins vegar að lagalega séð hafi honum ekki verið gefinn nægur frestur til að flytja út.

Barátta foreldranna hefur staðið yfir frá því í febrúar, en þá sendu þau syninum fyrsta bréfið. „Við höfum ákveðið að þú þarft að yfirgefa húsið án tafar,“ segir í bréfinu sem er dagsett 2. febrúar.

Þegar Michael hlýddi ekki því sem stóð í bréfinu sendu þau honum formlegt útburðarbréf 13. febrúar. Foreldrarnir buðu Michael jafnframt að þiggja 1.100 dollara, eða sem nemur 115 þúsund krónum, fyrir að flytja að heiman. Sonurinn sat hins vegar sem fastast.

Í apríl leituðu Rotando-hjónin til dómsyfirvalda í borginni en fengu þau svör að þar sem Michael er hluti af fjölskyldunni þyrftu þau að leita til hæstaréttar.

Michael segir í samtali við WABC-fréttastofuna að foreldrar hans séu í hefndarhug og krafðist hann að hæstiréttur felldi niður mál foreldranna gegn honum.

Staðreyndin er hins vegar sú að útburðarbeiðni foreldranna var samþykkt og Michael þarf nú að fljúga úr hreiðrinu. 

Frétt The Guardian

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert