Ákvörðun um leiðtogafund í höndum Kim

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat fyrir svörum á fundi utanríkismálanefndar …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat fyrir svörum á fundi utanríkismálanefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþinsgs í dag. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ákvörðun um hvort verði af leiðtogafundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sé alfarið í höndum hins síðar nefnda.

Pompeo sat fund utanríkismálanefndar fulltrúardeildar Bandaríkjaþings í dag þar sem hann var meðal annars spurður hvort leiðtogafundurinn færi fram.

Til stendur að fundurinn verði haldinn í Singapúr 12. júní. Óvissa ríkir nú um fundinn þar sem stjórn­völd í Norður-Kór­eu hótuðu í síðustu viku að hætta við leiðtoga­fundinn ef Banda­rík­in gera kröfu um að Norður-Kórea eyði öll­um sín­um kjarn­orku­vopn­um ein­hliða.

„Hann [Kim Jong-un] óskaði eftir fundinum, forsetinn samþykkti að hitta hann,“ segir Pompeo, sem er vongóður um að fundurinn muni eiga sér stað.

Trump sagði í gær að líklegt væri að fundinum yrði frestað um óákveðinn tíma.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert