Brutu á réttindum transmanns

Grimm fékk ekki að nota karlaklósettið í skólanum.
Grimm fékk ekki að nota karlaklósettið í skólanum. AFP

Dómari í Virginíu í Bandaríkjunum stóð með transmanni í máli gegn skólastjórnendum, en hann sakaði þá um að brjóta á réttindum sínum þegar honum var bannað að nota karlaklósett skólans.

Í frétt Guardian segir að um stórsigur í réttindabaráttu transfólks sé að ræða. Héraðsdómarinn Arenda Wright Allen ákvað að falla frá beiðni skólastjórnenda í skólanum í Glouchester um að ákæra Gavin Grimm yrði látin niður falla.

Dómarinn sagði skólastjórnendur hafa útskúfað Grimm og að réttur hans til að fara á það klósett sem hann kysi væri varinn með lögum. Dómarinn fyrirskipaði lögmönnum beggja málsaðila að skipuleggja sáttafund innan 30 daga.

Í yfirlýsingu frá skólastjórnendum segir að þeir hafi trú á því að þeir hafi höndlað málið rétt og haft hagsmuni allra nemenda og foreldra í skólanum að leiðarljósi.

Grimm lögsótti skólann árið 2015 eftir að skólinn meinaði honum að nota karlaklósettið. Hann sagði úrskurð dómarans mikinn létti eftir að hafa barist gegn stefnunni síðan hann var 15 ára.

Málið hefur farið á milli dómstóla síðan 2015, en héraðsdómari hafði áður staðið með skólastjórnendum í málinu. Áfrýjunardómstóll sneri málinu hins vegar við, en því var svo áfrýjað til hæstaréttar sem féll frá málinu vegna þess að Trump lét niður falla ákvæði frá Obama um að nemendur ættu að fá að nota salerni þess kyns sem þeir samsömuðu sér við. Þá tók héraðsdómur málið upp að nýju og niðurstaðan var eins og áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert