Heyrði hljóð og hlaut heilaskaða

Kona á gangi í Peking í Kína.
Kona á gangi í Peking í Kína. AFP

Bandaríska sendiráðið í Kína gaf í dag út heilsufarsviðvörun eftir að sendiráðsstarfsmaður varð fyrir „afbrigðilegu hljóði“ og hlaut minniháttar heilaskaða í kjölfarið. Atvikið minnir á dularfull veikindi erindreka á Kúbu.

Bandarísk og kínversk yfirvöld eru að rannsaka málið eftir að starfsmaðurinn, sem var við vinnu í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, var greindur með minniháttar heilaáfall, að sögn Jinnie Lee, talsmann bandaríska sendiráðsins. 

Í tölvupósti sem sendiráðið sendi bandarískum ríkisborgurum í Kína segir að ekki sé vitað hvað olli einkennunum eða hvort að önnur sambærileg mál hafi komið upp í landinu.

Dularfull árás

Bandarísk yfirvöld greindu frá því í fyrra að 24 erindrekar þeirra, sem voru á Kúbu, hefðu veikst í kjölfar dularfullrar árásar. Tíu kanadískir erindrekar veiktust með sambærilegum hætti og líktust einkennin vægu heilaáfalli.

„Við getum ekki á þessari stundu tengt þetta við það sem gerðist í Havana en við erum að rannsaka alla möguleika,“ hefur AFP-fréttastofan eftir heimildarmanni innan bandaríska sendiráðsins í Peking.

Í tilkynningu sendiráðsins segir að starfsmaðurinn sem veiktist hafi nýverið tilkynnt um dauft en „afbrigðilegt hljóð“ og „þrýsting“ sem hann varð fyrir.

„Bandarísk stjórnvöld taka þessum fréttum alvarlega og hafa upplýst starfsmenn sína í Kína um atburðinn,“ segir í tilkynningunni. Eru Bandaríkjamenn í Kína beðnir að tilkynna ef þeir t.d. upplifa undarlegt hljóð en eru beðnir að reyna ekki að komast að uppruna þess. „Þess í stað færið ykkur á stað þar sem hljóðið heyrist ekki.“

Lee segir að starfsmaðurinn hafi fundið fyrir ýmsum líkamlegum einkennum frá því síðla árs í fyrra og þar til í apríl ár. Hann var sendur til Bandaríkjanna til rannsóknar þar sem í ljós kom að hann var með minniháttar heilaskaða (MTBI). 

Á Kúbu sögðust erindrekarnir sem veiktust einnig hafa heyrt „óvenjulegt hljóð“ að því er fram kom í svörum bandaríska utanríkisráðuneytisins við spurningum öldungadeildar þingsins í janúar. Fólkið fann fyrir höfuðverkjum, skertri heyrn, varð utan við sig og missti jafnvægið. 

Yfirvöld töldu að þeir hefðu jafnvel orðið fyrir árás með „hljóðrænu vopni“ en alríkislögreglunni, FBI, hefur ekki tekist að sanna það. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert