Matarlausir og drukku hland

Hælisleitandi horfir á haf út. Mynd úr safni. Brasilískir sjómenn …
Hælisleitandi horfir á haf út. Mynd úr safni. Brasilískir sjómenn sannfærðu mennina 25 um að sjóleiðin til Brasilíu væri fljótfarin. AFP

Hópi afrískra hælisleitenda var bjargað úti fyrir ströndum Brasilíu um síðustu helgi. Þeir höfðu þá verið á sjó í 35 daga og höfðu sumir þeirra neyðst til að drekka hland til að lifa ferðina af.  Mastrið á bátinum var brotið og vélin biluð og bátinn rak hjálparlaust um Atlantshafið er hann fannst.

„Ég bið bænir á hverjum degi. Ég bað mikið á þessari stundu og svaf ekki á nóttinni,“ sagði Muctarr, einn hælisleitendanna í samtali við Guardian. Með honum um borð voru 24 hælisleitendur sem höfðu lagt af stað frá Grænhöfðaeyjum í apríl eftir að tveir brasilískir sjómenn höfðu sannfært þá um að sjóleiðin til Brasilíu væri fljótfarin. Allir vonuðust mennirnir til að fá vinnu er þangað væri komið.

Heppni að enginn hafi dáið

3.000 sjómílna ferðalagið í 12 metra löngum bátnum reyndist þó taka 35 daga og höfðu hælisleitendurnir verið án matar og vatns um nokkurra daga skeið þegar sjómenn björguðu þeim um 80 sjómílur úti fyrir ströndum Brasilíu.

„Eftir 35 daga ferðalag við þessar aðstæður þá er ótrúleg heppni að enginn hafi dáið,“ segir Luis Almeida, yfirmaður útlendingadeildar lögreglunnar í São Luís.

„Það var ekki pláss fyrir þá alla í káetunni, þannig að þeir voru óvarðir fyrir sólinni og geislum hennar meirihluta tímans,“ bætir hann við.

Mennirnir, sem komu frá Senegal, Nígeríu, Sierra Leone og Gíneu-Bissau, voru ringlaðir, þjáðust af vökvaskorti og áttu sumir í vandræðum með sjónina eftir að hafa starað svo lengi á geisla sólar speglast á haffletinum.

Almeida segir mál mannanna án fordæmis. Hælisleitendur hafi vissulega komið áður sjóleiðina til Brasilíu, en þá um borð í flutningaskipum. Aldrei áður hafi bátsfarmur hælisleitenda komið í höfnina í Maranhão-fylki. Þess má geta að brasilísku sjómennirnir tveir, sem einnig voru um borð, voru handteknir fyrir að hvetja til ólöglegs innflutnings á fólki.

Varð hræddur er hann sá stærðina á bátnum

Mansaray, múslimi frá Sierra Leone, var í hópi hælisleitendanna. Hann hafði verið við nám á Grænhöfðaeyjum um tveggja ára skeið en átti í erfiðleikum með að greiða skólagjöldin. Vinur hans sem er í háskólanámi í São Paulo sagði honum að þar myndi háskólanámið ekki kosta hann neitt og að hann gæti auk þess sent öldruðum foreldrum sínum og systur í Sierra Leone fé.

„Það var þess vegna sem ég fór um borð í bátinn,“ segir hann.

Skömmu áður hafði hann verið kynntur fyrir Brasilíumanni sem rukkaði hann um 700 dollara fyrir ferðina til Brasilíu, sem honum var sagt að tæki 22 daga. Hann segist hins vegar hafa orðið hræddur er hann sá hve lítill báturinn var.

„Ég var sá síðasti sem kom um borð og þar var fullt að mönnum fyrir. Ég hugsaði Guð minn góður verður þetta öruggt fyrir okkur alla?“ rifjar hann upp. „Hvernig get ég farið í þessa ferð. En af því að ég var þegar kominn um borð, þá gat ég ekki latt aðra. Þannig að ég fann kjarkinn og fór. Síðan bilaði mótorinn og seglið.“

Aðrið höfðu greitt meira fyrir ferðina og verið lofað mat á leiðinni. Matarbirgðirnar voru hins vegar uppurnar eftir 10 daga og þá lifðu mennirnir á tveimur kexkökum og nokkrum skeiðum af mat á hverjum degi. Einn daginn tókst einum mannanna síðan að veiða fisk. „Við elduðum fiskinn og þá fengu allir að borða,“ segir Mansaray.

„Næsta dag hefði einhver dáið“

Vélin bilaði síðan þegar áhöfnin blandaði saman ljósaolíu og dísilolíu og mastrið brotnaði þegar reynt var að festa það við hlið bátsins. Stormur sem þeir lentu í á leiðinni reyndist síðan kærkominn, því honum fylgdi a.m.k. regnvatn sem nýta mátti til drykkjar.

Þegar ástandið var að verða verulega alvarlegt kom fiskibátur auga á þá og flutti til hafnar.  „Næsta dag hefði einhver dáið,“ sagði Moisés dos Santos, einn fiskimannanna, við fréttamenn. „Þeir segjast hafa borðað tvær kexkökur á dag. Þeir drukku jafnvel hland að því er þeir sögðu okkur. Okkur er heiður að því að hafa bjargað fullt af fólki.“

Heilbrigðisstarfsfólk tók á móti mönnunum við komuna og hefur þeim verið útbúinn tímabundinn svefnstaður í leikfimisal í borginni.

„Allir segja þeir að lífið hafi verið erfitt í heimalandinu og allir eiga þeir ættingja eða þekkja fólk í Brasilíu. Þeir komu hingað í leit að betra lífi og vinnu,“ segir mannréttindafulltrúi héraðsins, Jonata Galvão.

Er brasilíska ríkislögreglustjóraembættið nú sagt vera að meta mál mannanna og hvort þeir geti fengið dvalarleyfi í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert