Mega búast við sektum ef þeir krjúpa

„Ég ætla ekki að standa upp til að sýna stolt …
„Ég ætla ekki að standa upp til að sýna stolt gagn­vart fána lands sem kúg­ar svarta og litað fólk,“ sagði Kaepernick (fyrir miðju), leikstjórnandi San Fransisco 49ers, í ágúst 2016. AFP

Félög í NFL-deildinni í Bandaríkjunum mega búast við sektum ef leikmenn þeirra krjúpa á meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna er fluttur fyrir leiki á næstu leiktíð.

BBC greinir frá því að eigendur NFL-liða hafi samþykkt nýja reglugerð þess efnis að félög verði sektuð af deildinni ef leikmenn eða starfsmenn þeirra gerast sekir um að vanvirða bandaríska fánann eða þjóðsönginn, svo sem með því að krjúpa á meðan þjóðsöngnum stendur. Upphæð sektanna er ekki tekin fram í reglugerðinni.

Forsaga málsins er sú að í ágúst 2016 tók Col­in Kaepernick, leik­stjórn­andi San Francisco 49ers, þá ákvörðun að standa ekki heldur krjúpa á meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna var sunginn fyrir leik. „Ég ætla ekki að standa upp til að sýna stolt gagn­vart fána lands sem kúg­ar svarta og litað fólk. Fyr­ir mér er þetta stærra en fót­bolt­inn og það væri sjálfs­elskt af mér að líta und­an. Það liggja lík í göt­unni og fólk er að fara í launað leyfi og kom­ast upp með morð,“ sagði Kaepernick.

Í kjölfarið fór af stað mót­mæla­alda meðal leik­manna banda­rísku NFL-deild­ar­inn­ar og fleiri íþrótta­manna, sem stig­magn­aðist á örskotsstundu. Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti blandaði sér meðal annars í umræðuna og hvatti hann meðal annars til þess að þeir leik­menn sem ekki stæðu und­ir þjóðsöngn­um yrðu um­svifa­laust látn­ir fjúka.

Samkvæmt nýju reglugerðinni gefst leikmönnum hins vegar kostur á að hinkra inni í búningsklefa á meðan þjóðsöngurinn er leikinn. Leikmannasamtök deildarinnar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að forsvarsmenn deildarinnar hafi ekki sett sig í samband við samtökin né talsmenn leikmanna áður en reglugerðin var samþykkt.

Leikmannasamtökin efast um þessa nýju „reglugerð“ og munu þau mótmæla henni ef í ljós kemur að hún stenst ekki samkomulag sem var gert á milli leikmanna og deildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert