Stefna sendiherra Bandaríkjanna

AFP

Stjórnvöld í Kamerún hafa stefnt sendiherra Bandaríkjanna í landinu, Peter Barlerin, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar.

Sendiherrann sakaði stjórnarherinn í Kamerún um aftökur og annað ofbeldi í garð skæruliða úr hópi aðskilnaðarsinna í síðustu viku. 

Skæruliðarnir krefjast sjálfstæðis tveggja enskumælandi héraða í landinu. Í tilkynningu sem Barlerin sendi frá sér 18. maí segir hann að á vegum stjórnvalda hafi skæruliðar verið teknir af lífi, fangelsaðir án þess að fá að ræða við lögfræðing, fjölskyldu eða Rauða krossinn. Eins hefur stjórnarherinn farið ránshendi á milli þorpa og kveikt í þeim.

Hann tekur einnig fram að skæruliðarnir hafi að auki myrt og rænt embættismönnum og lögreglumönnum og kveikt í skólum. Sendiherrann sendi yfirlýsinguna í kjölfar viðvarana frá mannréttindasamtökum um ofbeldi og misnotkun í átökunum. 

Átökin hófust árið 2016 þegar aðgerðarsinnar úr hópi enskumælandi minnihlutans kröfðust aukinnar sjálfstjórnar. Að minnsta kosti 120 almennir borgarar og 43 sérsveitarmenn hafa verið drepnir í átökunum frá lokum árs 2016. Um það bil fimmtungur þjóðarinnar er enskumælandi en alls eru íbúar Kamerún 22 milljónir talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert