Flugskeytið í eigu rússneska hersins

Farþegaþota Malaysia Airlines MH17 rifnaði í sundur yfir lofthelgi Úkraínu …
Farþegaþota Malaysia Airlines MH17 rifnaði í sundur yfir lofthelgi Úkraínu er hún varð fyrir flugskeyti. AFP

Flugskeytið sem grandaði farþegaþotu Malaysia Airlines flugfélagsins yfir austurhluta Úkraníu í júlí 2014 var í eigu rússneskrar herdeildar. Þetta fullyrðir hollenska rannsóknarteymið sem rannsakaði atvikið. BBC greinir frá.

Áður hefur komið fram að flugskeytið hafi verið rússneskrar gerðar, en þetta er í fyrsta skipti sem rannsakendur staðhæfa að það hafi verið í eigu rússneska hersins. Er það sagt hafa komið frá hersveit sem er með bækistöð sína í vesturhluta Rússlands.

Alls létust 298 manns sem voru um borð í Boeing 777 vélinni er hún rifnaði í sundur í lofthelginni yfir Úkraínu á leiðinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur.

Flugskeytinu var skotið á loft yfir svæði uppreisnarmanna í Úkraínu og hafa rússnesk yfirvöld fullyrt að ekkert þeirra vopna hafi verið notað til verksins.

„Öll ökutæki í bílalestinni sem bar flugskeytið tilheyrðu rússneska hernum,“ sagði einn rannsakendanna, Wilbert Paulissen, við fréttamenn í dag. Því næst ítrekaði hann þá niðurstöðu rannsóknarteymisins að farþegaþotan hefði verið skotin niður af rússnesku Buk flugskeyti og að það hefði komið frá 53. herdeildinni í Kursk.

Þá birti hann einnig myndir af samfélagsmiðlum sem rannsakendur segja rekja leiðina sem flugskeytalestin fór á leið sinni til Austur-Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert