Kjarnorkutilraunasvæðið jafnað við jörðu

Frá umfjöllun suður-kóreskrar sjónvarpsstöðvar um aðgerðir dagsins.
Frá umfjöllun suður-kóreskrar sjónvarpsstöðvar um aðgerðir dagsins. AFP

Norður-Kórea hefur jafnað kjarnorkutilraunasvæði sitt í Pyungge-ri við jörðu. Erlendum fjölmiðlum var boðið að fylgjast með aðgerðunum í dag, sem marka velvilja Norður-Kóreumanna í aðdraganda fundar Kim Jong-un og Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem fram fer í næsta mánuði.

Fréttamenn á svæðinu lýstu atburðunum sem svo að fjöldi sprengja hefði sprungið á svæðinu yfir daginn. Þar af voru þrjár sprengjur sprengdar í inngangsgöngum að neðanjarðartilraunasvæðinu. Í kjölfarið fylgdu sprengjur sem eyðilögðu skála og aðrar byggingar.

„Það var stór sprenging, maður fann fyrir því. Það kom ryk og hiti að okkur. Þetta var mjög hávaðasamt,“ skrifaði Tom Cheshire, fréttamaður Sky News, um upplifunina.

Pyunggye-ri kjarnorkutilraunasvæðið er staðsett neðanjarðar í fjallgarði í norðurhluta landsins, skammt frá landamærunum við kína, og er eina þekkta tilraunasvæði landsins. Þar hafa allar sex kjarnorkutilraunir landsins farið fram, þar á meðal sú stærsta frá upphafi sem gerð var í september á síðasta ári.

Sérfræðingar eru óvissir um það hvort aðgerðir dagsins geri tilraunasvæðið ónothæft. Efasemdarmenn segja að svæðið hafi lifað af sex kjarnorkutilraunir og að auðvelt sé að byggja það upp að nýju gerist þess þörf.

Aðrir segja að sú staðreynd að Norður-Kórea hafi eyðilagt svæðið án skilyrða og án þess að biðja um eitthvað í staðinn frá stjórnvöldum í Washington sýni að veldinu sé alvara um breytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert