Vildi að sérfræðingar fylgdust með lokuninni

Suður-kóresk sjónvarpsstöð sýnir útsending frá eyðileggingu kjarnorkutilraunasvæðisins.
Suður-kóresk sjónvarpsstöð sýnir útsending frá eyðileggingu kjarnorkutilraunasvæðisins. AFP

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fagnaði í dag fréttum af því að kjarnorkutilraunasvæði Norður-Kóreu hefði verið jafnað við jörðu. Hann kvaðst engu að síður vera þeirrar skoðunar að alþjóðlegir sérfræðingar hefðu átt að vera á staðnum til að fylgjast með.

„Það er miður að alþjóðlegum sérfræðingum hafi ekki verið boðið að vera vitni að lokun svæðisins,“ sagði í yfirlýsingu frá Guterres.

Þá kvaðst hann einnig vera verulega áhyggjufullur yfir að bandarísk stjórnvöld hafi hætt við fyrirhugaðar viðræður Donald Trumps Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Ráðamenn í Norður-Kóreu buðu erlendum blaðamönnum að vera viðstaddir lokun svæðisins í Hamgyong og hafa þeir lýst röð sprenginga sem hljómuðu í gegnum daginn er neðanjarðargöng á tilraunasvæðinu voru sprengd. Þá voru herskálar og aðrar byggingar einnig eyðilagðar.

Kvaðst Guterres þó vona að þessi „traustvekjandi aðgerð muni ýta undir tilraunir til að koma á viðvarandi friði og sannanlegri afvopnavæðingu kjarnorkuvopna á Kóreuskaga.“

Allar sex kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu voru framkvæmdar á svæðinu, m.a. síðasta og öflugasta tilraunin sem var gerð í september í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert