15 særðir eftir sprengingu á veitingastað

Kanadíska lögreglan hefur nú birt mynd af mönnunum tveimur sem …
Kanadíska lögreglan hefur nú birt mynd af mönnunum tveimur sem grunaðir eru um tilræðið. Skjáskot/Twitter

15 manns særðust er tveir menn sprengdu heimatilbúna sprengju á veitingastað í borginni Mississauga í Kanada í gærkvöldi. Þeir flúðu því næst af vettvangi að sögn lögreglu.

Reuters segir sprengjuna hafa sprungið á veitingastaðnum Bombay Bhel um hálfellefuleytið í gærkvöldið að staðartíma. 15 manns þurftu aðhlynningar við á sjúkrahúsi eftir sprenginguna og eru þrír þeirra alvarlega særðir að því er sagði í Twitter-skilaboðum frá neyðarþjónustu borgarinnar.

Hinir grunuðu flúðu hins vegar af vettvangi eftir að hafa virkjað sprengjuna, sem sögð er hafa verið heimatilbúin. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni og ástæður árásarinnar eru ókunnar.

Lögregla hefur nú birt myndir á Twitter sem sýna tvo menn í dökklitum hettutreyjum ganga inn á veitingastaðinn. Annar þeirra virðist vera með eitthvað í höndunum þegar þeir ganga þar inn.



Er annar hinna grunuðu sagður vera þéttvaxinn, á miðjum þrítugsaldri og hafa verið klæddur dökkbláum gallabuxum og dökkleitri hettupeysu sem hann á að hafa notað til að dylja höfuð sitt. Hinn var grannvaxinn, í snjáðum gallabuxum, gráum stuttermabol og dökkleitri hettupeysu sem hann notaði einnig til að dylja höfuð sitt.

Lögregla lokaði á umferð um svæðið í kjölfar sprengingarinnar og voru vopnaðir lögreglumenn sérsveitarinnar áberandi á vettvangi, ásamt sjúkrabílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert