Lögðu hald á 54 kg af fentanyl

Fentanyl er 30-50 sinnum sterkara en heróín.
Fentanyl er 30-50 sinnum sterkara en heróín. AFP

Lögreglan í Nebraska í Alaska hefur lagt hald á 54 kg af verkjalyfinu fentanyl og er þetta eitt mesta magn sem lögregla hefur lagt hald á af efninu.

Bandaríska fíkniefnalögreglan (DEA) greindi frá fundinum og segir efnin sem fundust hafa getað orðið allt að 26 milljónum manna að bana, en fentanyl er ópíóðalyf sem er 30-50 sinnum sterkara en heróín.

Verkjalyfin fundust í földu rými sem útbúið hafði verið aftan í vöruflutningabíl og handtók lögregla bæði ökumann og farþega bílsins.

Aldrei í sögu Nebraska hefur verið lagt hald á meira magn af lyfinu að því er lögreglan í Nebraska greinir frá á Twitter.

Lögregla stöðvaði bíl Felipe Genao-Minaya vegna grunsamlegs aksturslags og fannst þá fentanylið, sem lögregla taldi upphaflega vera blöndu kókaíns og annarra fíkniefna. Nánari rannsókn leiddi hins vegar í ljós að eingöngu var um fentanyl að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert