Segir betri samning „hreina óskhyggju“

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðum við Bretland, Ine Marie …
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðum við Bretland, Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hrein óskhyggja er að ætla að hægt sé að halda í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og semja á sama tíma um nýjan saming við Evrópusambandið. Þetta kemur fram í skýrslu Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, um utanríkismál til norska þingsins. Fjallað er um málið á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK.

Vaxandi umræða hefur verið í Noregi um aðild landsins að EES-samningnum og hafa skoðanakannanir bent til þess að fleiri Norðmenn vilji skipta honum út fyrir víðtækan fríverslunarsamning en þeir sem vilja halda í samninginn, auk þess sem stjórnmálaflokkar eins og Miðflokkurinn og Sósíalíski vinstriflokkurinn taka undir það.

Klæðskerasaumaður samningur við ESB ekki í boði

Søreide varar við þeirri umræðu og segir að með því sé EES-samningurinn í húfi. Ekki sé hægt að semja við Evrópusambandið um klæðskerasaumaðan samning og fá aðeins það sem menn vilja en sleppa því sem þeir vilji ekki. Sambandið hafi sagt hreint út að ekki sé hægt að vera að hálfu leyti á innri markaði þess og að hálfu leyti utan hans.

Utanríkisráðherrann, sem kemur úr Hægriflokknum sem hlynntur er inngöngu Noregs í Evrópusambandið, segir EES-samninginn veita einstakan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og þar með heimamarkaði upp á 500 milljónir manna, en auk Noregs eiga Ísland og Liechtenstein aðild að samningnum utan sambandsins.

Fullyrða án þess að hafa kannað möguleikann

Leiðtogi Sósíalíska vinstriflokksins, Audun Lysbakken, sakar ríkisstjórn Noregs um aðgerðaleysi í samtali við NRK þegar komi að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þar sé verið að semja um nýjan samning við sambandið. Á sama tíma fullyrði ríkisstjórnin að Norðmenn geti ekki náð öðrum og betri samningum við það.

„Ríkisstjórnin kýs að halda því fram að breytingar á tengslum Noregs við Evrópusambandið séu ekki mögulegar án þess að hafa gert eina einustu tilraun til þess að taka málið upp og kanna möguleikana á betri samningi fyrir Noreg,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert