Umfangsmikil leit að árásarmönnum

Mynd úr eftirlitsmyndavél.
Mynd úr eftirlitsmyndavél. Ljósmynd/AFP

Kanadíska lögreglan leitar nú ákaft tveggja einstaklinga sem grunaðir eru um sprengjuárás á veitingastað í Kanada í gærkvöldi. Fimmtán særðust í árásinni, þar af þrír alvarlega.

Hinir grunuðu árásarmenn gengu inn á veitingastaðinn Bombay Bhel í Mississauga í Kanada um hálfellefuleytið í gærkvöldi og virkjuðu heimatilbúna sprengju sem annar þeirra hélt á. Þeir flúðu í kjölfarið vettvang, að því er fram kemur á vef BBC.

Lögreglan hefur birt mynd úr eftirlitsmyndavél og biður almenning um hjálp við að bera kennsl á árásarmennina.

Að sögn Jennifer Evans lögreglustjóra er ekkert sem bendir til þess að um hryðjuverk eða hatursglæp hafi verið að ræða. Lögregla útilokar þó engar mögulegar ástæður að baki árásinni á þessu stigi málsins.

Borgarstjóri Mississauga, Bonnie Crombie, hefur kallað árásina ógeðfellda og vill sjá árásarmennina dregna til ábyrgðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert