Viðurkenna tap á Írlandi

Talning atkvæða er í fullum gangi á Írlandi í dag. …
Talning atkvæða er í fullum gangi á Írlandi í dag. Búist er við endanlegum úrslitum síðdegis. AFP

John McGuirk, talsmaður hópsins Save The 8th, sem berst gegn lögleiðingu fóstureyðinga á Írlandi, hefur viðurkennt að andstæðingar lögleiðingar hafi tapað þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi sem fór fram í gær. Þetta kemur fram í umfjöllun Sky News.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar munu ekki liggja fyrir fyrr en síðdegis í dag, en talning er hafin og gefa útgönguspár til kynna að niðurstaðan yrði 68% með lögleiðingu en 32% gegn. Irish Times segir frá því að talningin hingað til gefi vísbendingu um að úrslitin verði í takt við útgönguspár.

Samkvæmt Sky á McGuirk að hafa sagt við írska ríkisútvarpið RTE að niðurstaðan lægi fyrir og að „það eru engar líkur á því að lagabreytingunni verði hafnað“. Hann sagði jafnframt að réttur barns í kviði yrði ekki til í lögum, heldur hefði lagasetning aðeins viðurkennt þann rétt.

„Hann [réttur ófædds barns] er til óháð því hvernig fólk kýs, Hann er til óháð ákvæðum stjórnarskrár,“ sagði McGuirk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert