Flúði úr fangelsi og rændi níu banka

AFP

Spænska lögreglan greindi frá því í dag að hún hefði handsamað 66 ára gamlan karlmann sem grunaður væri um að hafa rænt níu banka síðan hann lét sig hverfa í síðasta mánuði eftir að hafa fengið leyfi úr fangelsi.

Fram kemur í frétt AFP að maðurinn, sem yfirvöld telja að hafi stundað það að ræna banka í yfir 35 ár, var handtekinn á hóteli í úthverfi Madrid, höfuðborgar Spánar, þar sem hann hafði keypt sér gistingu. Hann hafði verið á flótta síðan í apríl þegar hann skilaði sér ekki til baka í fangelsi í nágrenni höfuðborgarinnar.

Lögreglan segir að maðurinn hafi notað sömu aðferð við öll bankaránin. Hann hafi klætt sig upp á í betri föt og sýnt starfsmönnum bankanna skammbyssu áður en hann bað þá vinsamlegast um að afhenda sér reiðufé. Maðurinn lét sig síðan hverfa af vettvangi með aðstoð almenningssamgangna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert