„Við erum að horfa á 12. júní“

Fundurinn virðist vera kominn aftur á dagskrá.
Fundurinn virðist vera kominn aftur á dagskrá. AFP

Áform um tímamótafund Bandaríkjaforseta og leiðtoga Norður-Kóreu ganga mjög vel, segir Donald Trump. Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu segir þá að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu hafi tjáð sér að viðræðurnar myndu skapa sögulegt tækifæri til að binda enda á áratugalangar deilur.

Donald Trump olli skjálfta á Kóreuskaganum þegar hann aflýsti fundi sínum með leiðtoga N-Kóreu sem áformaður hafði verið þann 12. júní. Vísaði hann til opinskás fjandskaps frá stjórnvöldum í Pjongjang.

En innan sólarhrings breytti hann aftur um stefnu og sagði fundinn enn geta farið fram, eftir að hafa átt árangursríkar viðræður við Norður-Kóreumenn.

„Þetta gengur mjög vel,“ sagði Trump við blaðamenn síðla laugardags þegar hann var spurður fregna. „Við erum að horfa á 12. júní í Singapúr. Það hefur ekki breyst.“

Ólíkindalæti Bandaríkjaforseta ýttu af stað skyndilegum og óvæntum fundi leiðtoganna tveggja á Kóreuskaganum í gær, laugardag, en aðeins er um að ræða fjórða skiptið sem leiðtogar landanna hafa hist á fundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert