Neitaði að skipa ráðherra

Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella.
Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella. AFP

Forseti Ítalíu hefur stigið óvenjulegt skref í starfi með því að neita að staðfesta val nýrra valdhafa í landinu á fjármálaráðherra. Forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, nýtti sér ákvæði í stjórnarskrá landsins (grein 92) til þess að neita að skipa evruandstæðinginn  Paolo Savona í embætti fjármálaráðherra. Skipti þar engu að Savona væri sá sem forsætisráðherrann hafði valið til starfans og nýti til þess stuðnings meirihluta þingsins.

Leiðtogar Bandalagsins, Matteo Salvini og hreyfingarinnar Fimm stjörnur, Luigi Di Maio, eru mjög ósáttir við þessa ákvörðun forsetans en þetta er ekki í fyrsta skipti sem forseti landsins neitar að skipa ráðherra í embætti þrátt fyrir að viðkomandi ráðherra njóti stuðnings meirihluta þingsins. Í þrígang hefur það gerst og síðast þegar Silvio Berlusconi var við völd. 

Eftir kosningasigur árið 1994 lagði Berlusconi til við forseta landsins, Oscar Luigi Scalfaro, að útnefna persónulegan lögmann hans, Cesare Previti, í embætti dómsmálaráðherra. Á þessum tíma var Berlusconi þegar kominn í vandræði innan réttarkerfisins. Scalfaro neitaði og Berlusconi sætti sig við ákvörðun forsetans.

Di Maio ætlar hins vegar ekki að sætta sig við þessa ákvörðun forsetans og freistar þess að kæra Mattarella fyrir landráð. Til þess að það nái fram að ganga þarf tillaga Di Maio að fá hreinan meirihluta í báðum deildum þingsins á sameiginlegum fundi.

Forseti Ítalíu hefur mjög takmörkuð völd en getur skipað í embætti forsætisráðherra og valda ráðherra. Eins gefur stjórnarskráin forsetanum vald til þess að leysa upp þingið og hefur því ákvæði verið beitt nokkrum sinnum í stjórnmálakreppum í landinu. En þess má geta að alls hafa starfað 64 ríkisstjórnir í landinu frá árinu 1946.

Þegar fjármálakreppan var í algeymi árið 2011 þá studdi forseti Ítalíu, Giorgio Napolitano, tillögu um að bola Silvio Berlusconi frá völdum og skipa Mario Monti í embætti forsætisráðherra.

Berlusconi fordæmdi ákvörðun forsetans, sagði hana valdarán og krafðist nýrra kosninga til einskins.

Bandalagið og Fimm stjörnu hreyfingin lögðu til eftir að Ítalir greiddu atkvæði á móti stjórnarskrárbreytingum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 í þeirri von að koma forsætisráðherranum, Matteo Renzi, frá völdum en Mattarella neitaði að leysa upp þingið á þeim tíma.

Stjórnarkreppa hefur ríkt á Ítalíu frá því í mars þar sem illa hefur gengið að mynda ríkisstjórn þangað til nú þegar Bandalagið og Fimm stjörnur náðu samkomulagi um myndun stjórnar.

Giuseppe Conte sem verður forsætisráðherra Ítalíu sést hér koma af …
Giuseppe Conte sem verður forsætisráðherra Ítalíu sést hér koma af fundi með forseta landsins í gærkvöldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert