Býst við öflugum eftirskjálftum næstu daga

Um 850 manns hefur verið komið fyrir í bráðabirgðaskýlum í …
Um 850 manns hefur verið komið fyrir í bráðabirgðaskýlum í kjölfar jarðskjálftans. Ljósmynd/AFP

„Búast má við öflugum eftirskjálftum næstu tvo til þrjá daga,“ sagði Yoshihide Suga, talsmaður ríkisstjórnar Japan, við fjölmiðla eftir jarðskjálftann sem reið yfir Osaka í gærkvöldi.

Þrír eru látnir eftir skjálftann, þar á meðal níu ára stúlka sem varð undir vegg í kjölfar eftirskjálfta. Þá létust tveir eldri menn, annar eftir að hafa orðið undir vegg og hinn eftir að bókahilla féll á hann.

Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, sagði við fjölmiðla að yfirvöld væru að „vinna saman með það í forgangi að bjarga lífum fólks“.

Jarðskjálftinn mældist 6,1 stig og í kjölfar hans fylgdu harðir eftirskjálftar, sá stærsti mældist 5,3 stig. Rúmlega 200 manns eru slasaðir eftir skjálftana.

Samgöngur voru stöðvaðar víða í kring um Osaka og var borgin, og svæðið í kring um hana, að mestu rafmagnslaus í kjölfar skjálftans.

Ekki var gefin út flóðbylgjuviðvörun vegna skjálftans og fregnir greina frá því að öll starfsemi kjarnorkuvera væri eðlileg.

Um 850 manns voru flutt á brott og komið fyrir í bráðabirgðaskýlum.

„Jörðin hreyfðist kröftuglega. Þetta var sterkur lóðréttur kippur. Næstum allir diskar duttu í gólfið og brotnuðu,“ sagði Kaori Iwakiri búsett í Moriguchi sem er staðsett norðan við Osaka.

Byggingar hrundu í skjálftanum.
Byggingar hrundu í skjálftanum. Ljósmynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert