Trump vill stofna geimher

Þjóðaröryggi Bandaríkjanna þarf að tryggja utan úr geimnum, að mati …
Þjóðaröryggi Bandaríkjanna þarf að tryggja utan úr geimnum, að mati Bandaríkjaforseta. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði í dag Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, að setja á fót sérstaka geimdeild Bandaríkjahers. Geimdeildin yrði sjötta deild Bandaríkjahers en fyrir eru landher, flugher, landhelgisgæsla, flotinn og landgöngulið flotans.

„Við ætlum að hafa flugher og við ætlum að hafa geimher. Aðskildir en jafnir,“ segir í yfirlýsingu frá forsetanum. Herdeildin er þó ekki byggð á einum degi. Til þess þarf samþykki þingsins.

Umræður um geimdeild hafa staðið yfir í þinginu árum saman og skiptar skoðanir um málið. Eins og jafnan þegar réttlæta á aukin umsvif hersins er það gert með vísan til „þjóðaröryggis Bandaríkjanna“. 

„Þegar kemur að því að verja Bandaríkin er ekki nóg að Bandaríkin séu til staðar í geimnum. Við verðum að tryggja amerísk yfirráð yfir geimnum,“ sagði forsetinn við upphaf þriðja fundar Geimráðs Bandaríkjanna í morgun.

Ekki er auðséð hvað forsetinn á við með þessari yfirlýsingu, en samkvæmt alþjóðalögum eru geimferðir heimilar öllum ríkjum sem uppfylla alþjóðalög. Þá má ekkert ríki gera tilkall til geimsins eða nokkurs himintungls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert