WHO skilgreinir tölvuleikjafíkn sem geðröskun

Tölvuleikjafíkn fellur nú formlega undir geðraskanir samkvæmt WHO (World Health …
Tölvuleikjafíkn fellur nú formlega undir geðraskanir samkvæmt WHO (World Health Organization). AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur nú skilgreint tölvuleikjafíkn sem nýja tegund af geðröskun í elleftu útgáfu stofnunarinnar á Alþjóðlegum skilgreiningum sjúkdóma, betur þekkt sem ICD.

Samkvæmt dr. Vladimir Poznyak, starfsmanni geðheilsusviðs WHO, eru þrjú megineinkenni sem leita má að við greiningu á tölvuleikjafíkn eða „gaming disorder“ samkvæmt skilgreiningu WHO. Fyrst og fremst taka tölvuleikir yfir aðrar gjörðir daglegs lífs þar til þær eru komnar í aukahlutverk. Ef um er að ræða tölvuleikjafíkn er slík hegðun viðvarandi og síendurtekin. Að lokum leiðir sú hegðun til verulegrar skerðingar á einka- og fjölskyldulífi og námi eða starfi. Áhrifin geta oft verið gríðarlega mikil og sýnt sig í slæmu svefnmynstri, vandræðum með mataræði og lélegu líkamlegu formi.

Samkvæmt vef CNN eru einkenni tölvuleikjafíknar í grófum dráttum lík einkennum vímuefnafíknar eða fjárhættuspilafíknar. Til þess að greina tölvuleikjafíkn þarf sjúklingurinn, samkvæmt skilgreiningu ICD, að hafa sýnt viðvarandi einkenni röskunarinnar í tólf mánuði. Poznyak leggur áherslu á að röskunin er sjaldgæf og langflestir tölvuleikjaáhugamenn sem eyða jafnvel heilum klukkustundum við tölvuna á dag falli þó ekki undir tölvuleikjafíkla. Enn fremur segir hann mikilvægt að átta sig á því að um er að ræða klínískt ástand sem aðeins hæfir heilbrigðisaðilar eru færir um að greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert