16,2 milljónir hröktust að heiman

AFP

Áætlað er að 16,2 milljónir jarðarbúa hafi hrakist á vergang á síðasta ári en alls eru 68,5 milljónir á vergangi í heiminum. Fólk sem er neytt til þess að yfirgefa heimili sín vegna ofsókna, átaka eða ofbeldis. Af þeim er um helmingur börn.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Flótta­manna­stofn­unar Sam­einuðu þjóðanna (UNHCR). Á morgun er alþjóðlegi flóttamannadagurinn. Ekkert lát virðist ætla að verða á fólki á flótta en því hefur fjölgað um 2,9 milljónir á einu ári.

AFP

Sé horft til fjölda þeirra sem hröktust að heiman í fyrra þá svarar það til þess að á hverjum degi síðasta árs neyddust 44.400 manns að flýja heimili sitt. Það eru fleiri en samanlagður fjöldi allra íbúa í Kópavogi og Garðabæ. 

Á síðasta ári sneru um fimm milljónir flóttamanna heim, það er til svæða þaðan sem þeir eru eða heimalandsins. Það er fjölgun um 800 þúsund á milli ára. Flestir þeirra voru á vergangi í heimalandinu en tæplega 670 þúsund þeirra höfðu flúið heimalandið. 

68% allra flóttamanna eru frá fimm ríkjum. Líkt og undanfarin ár eru Sýrlendingar fjölmennastir eða 6,3 milljónir. Alls eru 2,6 milljónir Afgana á flótta, 2,4 milljónir eru frá Suður-Súdan, 1,2 milljónir frá Búrma og 986 Sómalar eru flóttamenn. Á heildina litið voru 63 prósent allra flóttamanna á vegum UNHCR í aðeins 10 löndum.

Rohingjar á flótta en þeir eru ofsóttir í Búrma.
Rohingjar á flótta en þeir eru ofsóttir í Búrma. AFP

Flótta­manna­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna skilgreinir flóttafólk á eftirfarandi hátt:

Flóttamaður er sá sem flýr land sitt og er utan heimalands síns „af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands“ og getur þess vegna ekki eða vill ekki fara aftur þangað. Um réttarstöðu flóttamanna í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951

Jan Egeland, sem stýrir norska flóttamannaráðinu (NRC), hefur verið öflugur …
Jan Egeland, sem stýrir norska flóttamannaráðinu (NRC), hefur verið öflugur málsvari flóttafólks í mörg ár. AFP

Í lok síðasta árs biðu 3,1 milljón hælisleitenda eftir svari við umsókn um alþjóðlega vernd. Alls komu fram 1,7 milljónir umsókna um alþjóðlega vernd í fyrra. Flestar voru umsóknirnar um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum, alls 331.700 talsins. 198.300 sóttu um alþjóðlega vernd í Þýskalandi, 126.500 á Ítalíu og 126.100 í Tyrklandi. Sem er það land sem hýsir flesta flóttamenn eða 3,5 milljónir. Aftur á móti er Líbanon sem fer fremst í flokki ef reiknað er út frá höfðatölu en einn af hverjum sex sem eru búsettir um þessar mundir í Líbanon er á flótta. Í Jórdaníu er hlutfallið einn af hverjum 14 og í Tyrklandi 1 af 23 landsmönnum. Ef Palestínumenn sem falla undir Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) eru taldir með hækkar talan enn frekar. Þá er fjórðungur landsmanna í Líbanon flóttamenn og einn af hverjum þremur í Jórdaníu. 

Sameinuðu þjóðirnar komu stofnuninni United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East (UNRWA) á stofn árið 1949 í kjölfar þess að Palestínumenn voru hraktir af heimilum sínum við stofnun Ísraelsríkis. 

Í árlegri skýrslu Þróun á heimsvísu, sem gefin er út í dag, segir  UNHCR að flóttamenn sem hafa flúið heimaland sitt vegna átaka og ofsókna væru um 25,4 milljónir af þessum 68,5 milljónum. Það er 2,9 milljónum meira en árið 2016, og mesta aukningin sem UNHCR hefur séð á einu ári. Vegalaust fólk innan eigin lands voru 40 milljónir af heildinni sem er lítils háttar fækkun frá 40,3 milljónun 2016.

Í stuttu máli voru nánast eins margir á þvinguðum flótta í heiminum árið 2017 og allir íbúar Taílands. Á heimsvísu er 1 af hverjum 110 einstaklingum flóttamaður.

Landamæravörður að störfum.
Landamæravörður að störfum. AFP

„Við stöndum frammi fyrir flóðgátt, þar sem árangur við stjórnun þvingaðs flótta á heimsvísu krefst nýrrar og mun áhrifaríkari nálgunar svo lönd og samfélög séu ekki skilin eftir ein með vandann,“ segir Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna í fréttatilkynningu.

Hann segir hins vegar að ýmislegt veki von um að heldur fari að rofa til í þessum málum. „Fjórtán lönd hafa þegar hrint í framkvæmd nýju skipulagi til að takast á við flóttamannavandann og innan nokkurra mánaða mun nýtt hnattrænt samkomulag vera tilbúið til samþykktar hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í dag, kvöldið fyrir alþjóðlega flóttamannadaginn, bið ég aðildarríkin um að styðja þetta. Enginn verður flóttamaður að eigin vali; en við hin getum valið hvernig við hjálpum.“

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) starfar í fjölmörgum löndum þar sem …
Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) starfar í fjölmörgum löndum þar sem fólk býr við neyð. AFP

Skýrsla UNHCR, Þróun á heimsvísu sem gefin er út árlega um allan heim fyrir alþjóðlega flóttamannadaginn (20. júní), gefur upplýsingar um þvingaðan flótta og byggir á gögnum sem safnað er af UNHCR, ríkisstjórnum og öðrum samstarfsaðilum.

Í henni er umhverfi alþjóðlegrar verndar ekki skoðað, því UNHCR gefur út sérstaka skýrslu um það en árið 2017 sáust tilvik um þvingaðar endursendingar fólks, flóttamenn gerðir að blórabögglum og nýttir í pólitískum tilgangi, þeir fangelsaðir og neitað um leyfi til að vinna, og nokkur lönd neita jafnvel að nota orðið „flóttamaður“.

Samt sem áður býður skýrslan upp á innsýn, m.a. inn í hvernig þvingaður flótti lítur út og hvernig hann er í raun og veru og hvernig ósamræmi getur verið milli þessara tveggja hugmynda.

Frá Filakio í Grikklandi.
Frá Filakio í Grikklandi. AFP

Meðal þeirra er hugmyndin um að flóttamenn heimsins séu aðallega norðan heimskautsbaugs. Gögnin sýna að hið gagnstæða er rétt – um 85 prósent flóttamanna eru í þróunarlöndum, sumum sárfátækum og fá þau lítin stuðning til að sinna þessu fólki. Fjórir af hverjum fimm flóttamönnum eru í löndum sem liggja að þeirra eigin.

Stórfelldur flótti yfir landamæri er einnig sjaldgæfari en þær 68 milljónir flóttamanna sem eru á heimsvísu gefa til kynna. Nær tveir þriðju þeirra sem neyðast til að flýja eru veglausir í eigin landi og hafa ekki farið frá heimalandi sínu. Af 25,4 milljónum flóttamanna er rúmlega fimmtungur Palestínumenn undir verndarvæng UNRWA, Palestínuflóttamannaaðstoðar SÞ. Af hinum, sem UNHCR ber ábyrgð á, koma tveir þriðju frá einungis fimm löndun: Sýrlandi, Afganistan, Suður-Súdan, Myanmar og Sómalíu. Sé bundinn endir á átök í einhverju þeirra getur það haft mikil áhrif á ástandið í flóttamannamálum um allan heim.

85% flóttamanna eru í þróunarlöndunum, ekki í Evrópu og öðrum …
85% flóttamanna eru í þróunarlöndunum, ekki í Evrópu og öðrum vestrænum ríkjum líkt og margir virðast telja sem kvarta undan straumi flóttafólks. AFP

Aðrar tvær staðreyndir úr Þróun á heimsvísu eru að flestir flóttamenn búa í þéttbýli (58 prósent) en ekki í flóttamannabúðum eða í sveitum; og að flóttamenn eru ungir, 53 prósent eru börn og eru mörg þeirra án fylgdarmanna eða hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.

„Því miður er skortur á lausnum á þessu öllu saman. Stríð og átök eru enn helsta orsökin og lítill sýnilegur árangur í átt til friðar. Um fimm milljónir einstaklinga gátu snúið aftur heim árið 2017 en flestir snéru aftur til að vera veglausir í eigin landi og meðal þeirra var fólk sem snéri aftur undir þvingun eða í viðkvæmar aðstæður. Vegna þess að færri pláss bjóðast til búferlaflutninga með aðstoð, fækkaði þeim flóttamönnum sem sneru heim með hjálp um 40 prósent og voru um 100.000 manns,“ segir enn fremur í tilkynningu UNHCR.

Angelina Jolie, sérlegur sendiherra UNHCR, sést hér í gamla hluta …
Angelina Jolie, sérlegur sendiherra UNHCR, sést hér í gamla hluta írösku borgarinnar Mosúl í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert