Færeyingar með Evrópumet í barneignum

Færeyingar hafa um áratuga skeið átt Evrópumet í barneignum. Hver færeysk kona fæðir að meðaltali 2,5 börn, samanborið við 1,7 börn á hverja íslenska konu, en fæðingartíðni á Íslandi hefur aldrei verið lægri en í fyrra samkvæmt Hagstofu Íslands. 

Færeyingar þakka frjósemina m.a. sterkum fjölskylduböndum og nálægð íbúanna. Barneignir Færeyinga virðast þó ekki koma niður á afkastagetu íbúanna til atvinnu, en vinnuafl þar er með því hæsta sem gerist í Evrópu, sérstaklega meðal kvenna. Þetta segir Hans Pauli Strom, félagsfræðingur hjá Hagstofu Færeyja, í samtali við AFP.

83% Færeyinga eru á vinnumarkaði, til samanburðar við 65% innan Evrópusambandsins. Þó er meira en helmingur færeyskra kvenna sem vinna í hlutastarfi, en það segir Strom ekki vera vegna skorts á fullri vinnu, heldur velji konurnar að vinna minna.

Færeyingar eru afar frjósamir.
Færeyingar eru afar frjósamir. AFP

Börn stærsta gjöfin

Gunnhild Helmsdal, læknir og búsett í Færeyjum, mun bráðlega fæða sitt fjórða barn, en fyrir á maður hennar barn úr fyrra sambandi. Því verða sjö manns á heimili hennar innan tíðar. „Börn eru stærsta gjöfin að mínu mati. Mig hefur alltaf langað til þess að eiga mörg börn. Stórar fjölskyldur eru kannski svolítið óreiðukenndar, en þær eru hamingjusamar fjölskyldur,“ segir Helmstad.

Hún segist stundum hafa áhyggjur af því að ná ekki að sækja börn sín í skóla eða frístundir þar sem hún rekur eigin læknastofu, en þá komi sér vel að foreldrar hennar eða önnur skyldmenni séu aðeins símtal í burtu og reiðubúin til þess að hjálpa.

Gunnhild Helmsdal, t.v., á von á sínu fjórða barni innan …
Gunnhild Helmsdal, t.v., á von á sínu fjórða barni innan tíðar. Fyrir á maður hennar eitt barn. AFP

Hagstæðar aðstæður til barneigna

Þegar nokkrir íbúar Færeyja voru spurðir um ástæðu frjóseminnar voru svörin á þessa leið í hæðni: „Það er einfaldlega ekkert annað að gera hér.“

Yfirvöld benda á hagstæðar aðstæður til barneigna í Færeyjum sem skýringu á frjóseminni, en þar er m.a. 46 vikna fæðingarorlof sem yfirvöld vilja lengja í eitt ár. Eins sé þar ekki skortur á leikskólum, kostnaður foreldra við að senda börn sín í leikskóla sé lágur og foreldrar fái fjárstyrki. 

Þó telur Strom aðalástæðuna vera einstaklega sterk fjölskyldubönd Færeyinga og að þeir búi skammt frá hver öðrum, sem geri það að verkum að auðveldara sé að fá hjálp frá skyldmennum og nágrönnum. „Í okkar menningu lítum við fremur á manneskjur sem hluta af fjölskyldu heldur en einstaklinga. Svo náið samband milli kynslóða veldur því að auðveldara er að eignast börn,“ segir Strom.  

Færeyingar þakka frjósemina m.a. sterkum fjölskylduböndum.
Færeyingar þakka frjósemina m.a. sterkum fjölskylduböndum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert