Kim Jong-un heimsækir Kína

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, heimsækir Kína í dag og á morgun, viku eftir fund hans með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í kínverska ríkisfjölmiðlinum CCTV en ekki kom fram þar hvort Kim Jong-un væri lentur í Kína.

Heimsókn hans til Kína verður sú þriðja til landsins frá því í mars þegar hann fór í sína fyrstu ferð utan sem leiðtogi Norður-Kóreu. Kim Jong-un freistar þess að fá viðskiptaþvingunum aflétt í með því að skuldbinda sig til að afkjarnorkuvæða Norður-Kóreu og er talið að hann leiti til Kína til stuðnings að því er fram kemur í frétt Nikkei.

Í kjölfar fundar leiðtoga Bandaríkjanna og Norður-Kóreu í síðustu viku hefur Kína lagt til að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna slaki á þeim viðskiptaþvingunum sem lagðar hafa verið á Norður-Kóreu.

Í sameiginlegri yfirlýsingu eftir fund Kim Jong-un og Donald Trump lofaði Kim að vinna að afkjarnorkuvæðingu Kóreuskaga. Trump á móti frestaði stórum heræfingum á Kóreuskaga um óakveðinn tíma en yfirvöld í Kína og Norður-Kóreu hafa lengi talið þær ögrun við þjóðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert