Timbraðir broddgeltir fluttir í dýragarð

Hinum timbruðu broddgöltum var komið í hendurnar á fagmönnum í …
Hinum timbruðu broddgöltum var komið í hendurnar á fagmönnum í dýragarði, þar sem þeir fengu að sofa úr sér. Ljósmynd/Lögreglan í Þýringalandi

Tveir broddgeltir fundust í slæmu ástandi á leiksvæði barna í borginni Erfurt í Þýskalandi á sunnudag. Svo virðist sem broddgeltirnir hafi komist í flösku af áfengu eggjapúnsi, sem hefur farið illa með margan manninn og nú einnig þessa oddhvössu félaga.

Gestir leiksvæðisins veittu slæmu ástandi broddgaltanna athygli og kölluðu til lögreglu, sem flutti broddgeltina til aðhlynningar í dýragarð í bænum, að því er Thüringer Allgemeine Zeitung greinir frá.

Starfsmenn dýragarðsins í Þýringalandi hlúðu að broddgöltunum þar til þeir voru búnir að sofa úr sér mestu vímuna, en lögreglan í Erfurt notaði einnig tækifærið og minnti á að allt rusl skyldi fara í ruslatunnur og að öll áfengisneysla væri bönnuð nærri leiksvæðum barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert