Tveir létust í lestarslysi á SV-Jótlandi

Slysið varð norðan við bæinn Sig, sem er í sveitarfélaginu …
Slysið varð norðan við bæinn Sig, sem er í sveitarfélaginu Varde, norðan við Esbjerg. Kort/Google

Tveir létu lífið er lest lenti á smárútu nærri bænum Sig í sveitarfélaginu Varde á SV-Jótlandi um kl. 13 að staðartíma í dag. Slysið átti sér stað á fáförnum vegi þar sem ökumenn bifreiða þvera lestarteina án eftirlits.

Mennirnir sem létust voru tveir saman um borð í smárútunni, en tveir farþegar lestarinnar voru einnig fluttir á slysadeild vegna gruns um heilahristing, að því er fram kemur í frétt á vef danska ríkisútvarpsins, DR.

Farþegum og lestarstjóra hefur verið veitt áfallahjálp.

Vegamótin þar sem slysið átti sér stað eru hættuleg að mati dönsku járnbrautarstofnunarinnar, Banedanmark. Þau hafa verið á lista stofnunarinnar yfir vegamót sem ætti annað hvort að leggja niður eða gera öruggari.

Stofnunin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem slysið er harmað.

Lögregla vinnur að því að bera kennsl á og hafa samband við ættingja hinna látnu og mun veita nánari upplýsingar um slysið í kjölfarið.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert