Þrír látnir og einn alvarlega særður

Sænska lögreglan að störfum í miðborg Malmö í gærkvöldi.
Sænska lögreglan að störfum í miðborg Malmö í gærkvöldi. AFP

Þriðji ungi maðurinn er látinn eftir skotárás í miðborg Malmö í gærkvöldi. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun. Þrír eru særðir eftir árásina og er einn þeirra alvarlega særður. Allir sem tengjast málinu hafa áður komist í kast við lögin og tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Talsmaður lögreglunnar, Stefan Sintéus, sagði á blaðamannfundinum að það væri alltaf sorglegt þegar ungt fólk létist. Alls voru sex fluttir á sjúkrahús eftir að skotið var á mennina þegar þeir yfirgáfu netkaffihús um klukkan 20 að staðartíma í gærkvöldi. Að sögn Sintéus skapaðist mikil ringulreið á vettvangi enda ekki vitað hvort um hryðjuverk væri að ræða. Hann biður þá sem veitt geta upplýsingar um árásina að hafa samband, hvort sem um myndir eða aðrar upplýsingar er að ræða.

Lögreglan vildi ekki staðfesta frásagnir vitna í fjölmiðlum um að sjálfvirkum vopnum hafi verið beitt í árásinni og segir Niklas Kirchhoff sem stýrir rannsókninni að tæknirannsókn muni leiða í ljós hvernig vopnum var beitt. 

Upp úr klukkan 23 í gærkvöldi greindi lögreglan frá því að átján ára gamall piltur hafi látist og stuttu seinna að annar maður, sem var 29 ára, væri einnig látinn. Ættingjar þeirra hafa verið upplýstir um málið. 

Í morgun fékk sænska ríkisútvarpið staðfest hjá stjórnendum háskólasjúkrahússins í Malmö að þriðji maðurinn, sem var 27 ára gamall, væri látinn. Sydsvenskan greindi fyrst frá andláti hans. Þetta hefur ekki fengist staðfest hjá lögreglu. 

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við árásina en lögregluþyrlur eru á sveimi yfir miðborginni.

SVT

Sænska lögreglan.
Sænska lögreglan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert