Miklir skógareldar í Moss

Mynd úr safni af skógareldum.
Mynd úr safni af skógareldum. AFP

Flytja þurfti um 300 íbúa í Moss í Noregi á brott í gærkvöldi og nótt vegna skógarelda í nágrenni heimila þeirra. Slökkviliðið hefur náð tökum á eldinum þar sem íbúabyggð er og fá íbúarnir væntanlega að snúa heim fljótlega. 

Í frétt Aftenposten kemur fram að alls hafi átta slökkviliðsbílar verið sendir á vettvang þegar eldurinn blossaði upp skömmu fyrir klukkan 23 í gærkvöldi. Slökkviliðið í Moss þurfti að fá aðstoð frá slökkviliði í Rygge, Vestby og Follo til þess að berjast við eldinn sem talið er að hafi náð yfir 15.000 m² vestur af Mosseskogen. Mikill vindur og erfiðar aðstæður gerðu slökkvistarfið erfitt, segir í frétt Aftenposten.

Að sögn Frode Johannessen, varðstjóra hjá neyðarlínunni, logar eldurinn enn, en slökkviliðið hafi náð góðum tökum á aðstæðum. Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að þyrla hafi nýst vel við slökkvistarfið í nótt.

Alls þurfti að flytja íbúa í 100-120 húsum, alls 300 manns, á brott í Gamleveien, Ørneveien, Granveien og Elgveien. Opnuð var hjálparmiðstöð í Mossehallen og fóru flestir þangað. Ekki er vitað til þess að eldurinn hafi valdið tjóni á húsum né heldur að fólk hafi meiðst.

Frétt Aftenposten

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert