Segja Benetton nota fólk í neyð í auglýsingar

Benetton hefur fengið á sig töluverða gagnrýni vegna auglýsingaherferðarinnar.
Benetton hefur fengið á sig töluverða gagnrýni vegna auglýsingaherferðarinnar. Mynd/Skjáskot af Twitter

Ítalski fataframleiðandi Benetton hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir auglýsingaherferð sem nýlega var hleypt af stokkunum, þar sem notast er við myndir af flóttafólki sem bjargað var af Miðjarðarhafi í júní. Myndirnar sýna flóttafólkið í björgunarvestum ásamt sjálfboðaliðum sem sinna hjálparstarfi. BBC greinir frá.

Hjálparsamtökin, SOS Méditerranée, sem komu að björgun fólksins hafa fordæmt Benetton fyrir að nota myndir af „fólki í neyð“ í auglýsingaskyni. Þá birti Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, færslu á Twitter og spurði hvort hann væri sá eini sem þætti þetta fyrirlitlegt. Það var hann sem neitaði að taka við flóttafólkinu þegar björgunarskipið Aqarius ætlaði að koma til hafnar á Ítalíu, en að endingu voru það Spánverjar sem tóku við hópnum.

Auglýsingarnar hafa birst á netinu og í ítalska dagblaðinu La Repubblica, en þær innihalda tvær myndir sem teknar voru 9. júní þegar hjálparsamtökin komu að björgun yfir 600 flóttamanna undan strönd Líbýu. 

Hjálparsamtökin SOS Méditerranée birtu yfirlýsingu á Twitter á þriðjudag þar sem tekið var fram að samtökin væru algjörlega ótengd auglýsingaherferðinni, en sögðu myndirnar hafa verið teknar þegar verið var að bjarga fólki í mikilli neyð. Benetton hefur ekki brugðist við gagnrýninni.

Hönnuður auglýsingaherferðarinnar er umdeildur ítalskur ljósmyndari, Oliviero Toscani að nafni. Hann segir myndirnar vera dramatískar og að viðbrögð innanríkisráðherrans hafi sannfært hann um að hann hafi gert rétt. Toscani gekk nýlega aftur til liðs við Benetton eftir 18 ára hlé, en hann stóð á bak við margar umdeildar auglýsingaherferðir fyrirtækisins hér á árum áður.

Hann hefur sjálfur sagt að herferðirnar, sem gjarnan snerta á mannréttindum, trúarbrögðum og kynþáttafordómum, séu hannaðar til að vekja athygli á ákveðnum málefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert