Börnum haldið í fangelsum á hjólaleiðinni

Búðirnar í Miami.
Búðirnar í Miami. AFP

Jón Eggert Guðmundsson, þríþrautakappi, segist hafa brugðið allverulega þegar fangabúðum fyrir börn var komið upp á hjólreiðaleið hans í Miami. Jón Eggert hefur nú sett heimsmet í þríþraut en hann hefur hjólað ríflega 5000 kílómetra á síðustu misserum.

Jón segist hafa tekið eftir því fyrir um það bil sex vikum síðan að iðnaðarmenn og fleira fagfólk hafi verið að bardúsa eitthvað við gamla herstöð úr kalda stríðinu sem hefur staðið auð frá því í fyrra. Hann segist ekki hafa sýnt málinu mikla athygli fyrr en herskari blaðamanna birtist í byrjun vikunnar fyrir utan bygginguna.

Jón Eggert hefur hjólað framhjá herskemmunni á síðustu misserum.
Jón Eggert hefur hjólað framhjá herskemmunni á síðustu misserum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón segir að nú sé búið að loka öllu í kringum bygginguna, sem þjónaði hlutverki herskemmu, og hann hafi í kjölfar þess þurft að breyta hjólaleið sinni. Jón fór síðast framhjá byggingunni í fyrradag þar sem bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn reyndu að komast inn. „Pólitíkusar hérna í Miami voru ekki látnir vita af þessu fyrirfram og reyna að komast inn en þeir bara mega það ekki.“

Aðspurður segist Jón finna lítið fyrir búðunum fyrir utan það að geta ekki lengur hjólað eftir sömu leið og hann er vanur. „Fólk verður samt náttúrulega mjög hissa þegar það er sett upp barnafangelsi í nágrenninu.“

Herskemman var tekin í notkun fyrir nokkrum árum sem miðstöð fyrir börn sem komu til landsins ólöglega og einsömul en var lokað á síðasta ári þegar fjöldi slíkra barna dróst skyndilega saman. Ekki er enn komið á hreint hvort að í búðunum séu nú börn sem komu einsömul til landsins eða börn sem voru aðskilin frá foreldrum sínum við landamærin líkt og í McAllen-búðunum í Texas. Ef til vill er um börn úr báðum hópum að ræða. Samkvæmt Miami Herald vildi talsmaður búðanna ekki greina úr málinu við blaðamenn.

Frá McAllen-búðunum í Texas.
Frá McAllen-búðunum í Texas. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert