Einn látinn í skotárás í Malmö

Talið er að árásin tengist átökum glæpagengja í borginni. Þrír …
Talið er að árásin tengist átökum glæpagengja í borginni. Þrír létust í skotárás á mánudag. AFP

Karlmaður var skotinn til bana í sænsku borginni Malmö í kvöld. Lögreglunni barst tilkynning um skotárás í hverfinu Lindängen um klukkan tíu að staðartíma, eða klukkan átta að íslenskum tíma. 

Maðurinn, sem er 24 ára, var fluttur með einkabíl á spítala. Lögregluvakt er á spítalanum. Sydsvenskan greindi fyrst frá láti mannsins og hefur sænska ríkisútvarpið staðfest að maðurinn var skotinn til bana. 

Þrír karlmenn létu lífið í skotárás í borginni á mánudag. Ekki hefur fengist staðfest að árásirnar tvær tengist með beinum hætti en talið er að árásin tengist átökum glæpagengja í borginni.

Leit að árásarmanninum stendur yfir og hefur lögregla lokað svæðinu þar sem árásin átti sér stað, í nágrenni við Lindängsplan. Tæknideild lögreglu er á vettvangi.

Fréttin hefur verið uppfærð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert