Mega innheimta söluskatt af netverslun

Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington-borg.
Hæstiréttur Bandaríkjanna í Washington-borg. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í dag að öll ríki Bandaríkjanna ættu að hafa rétt til þess að innheimta söluskatta af vörum sem seldar eru á netinu.

Með dóminum sneri þetta æðsta dómsvald landsins við 25 ára gamalli niðurstöðu, sem var á þá leið að til þess að ríki mættu innheimta söluskatta þyrfti söluaðilinn að vera með starfsstöðvar innan ríkisins þar sem salan ætti sér stað.

Samkvæmt frétt AFP er þessi viðsnúningur talinn geta aukið tekjur ríkja af netviðskiptum verulega. Hlutabréf í Amazon, eBay og fleiri fyrirtækjum sem sérhæfa sig í netviðskiptum lækkuðu óverulega í verði í kjölfar fregna af niðurstöðu réttarins.

Niðurstaða dómsins kemur í kjölfar máls sem Suður-Dakóta höfðaði á hendur netversluninni Wayfair, sem sérhæfir sig í sölu húsgagna. 35 ríki til viðbótar lýstu yfir stuðningi við málstað Suður-Dakóta, auk þess sem bandaríska alríkisstjórnin studdi ríkið í málaferlum sínum.

Reglan í fyrri dómi um þetta efni, um að fyrirtæki þyrftu að hafa „áþreifanlega viðveru“ í ríkjum til að þau mættu innheimta söluskatt var ekki talin standast, að mati dómstólsins, en dómarar voru þó ekki sammála um niðurstöðuna og féllu atkvæðin 5-4, Suður-Dakóta í vil.

Hefðbundnar verslanir vestanhafs hafa löngum kvartað yfir fyrri niðurstöðu réttarins og talið netverslanir njóta samkeppnisforskots sökum þess að þær væru ekki í öllum tilfellum krafðar um að innheimta söluskatta, sem leggjast beint ofan á vöruverð.

Frétt NYT um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert