Melania Trump heimsótti landamærabúðir

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, heimsótti búðir fyrir börn ólegra innflytjenda …
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, heimsótti búðir fyrir börn ólegra innflytjenda í Texas við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í dag. AFP

„Ég vil þakka ykkur fyrir að leggja hart að ykkur, fyrir samkennd ykkar og góðvild,“ sagði Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, í óvæntri heimsókn sinni í búðir fyrir börn ólöglegra innflytjenda í Texas við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í dag.

Talskona forsetafrúarinnar segir að með heimsókninni hafa hún viljað komast eins nálægt og mögulegt er því sem hún hefur séð í sjónvarpinu. „Hún vill fá raunsanna mynd af aðstæðum,“ sagði talskona forsetafrúarinnar, Stephanie Grishom, í samtali við CNN.

Sólarhringur er síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun þess efnis að fjölskyldur sem koma ólöglega yfir landamærin verði ekki lengur aðskildar. Melania sagði fyrr í vikunni að hún væri alfarið á móti því að börn væru tekin af foreldrum sínum og að hún telji að Banda­rík­in eigi að vera þjóð sem fram­fylg­ir öll­um lög­um „en einnig þjóð sem stjórn­ar af hjarta­gæsku“.

Melania er fyrsti meðlimur Trump-fjölskyldunnar sem kynnir sér aðbúnað barna ólöglegra innflytjenda í búðunum sem hafa verið sett upp við landamærin. Melania fundaði með læknum, hjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum sérfræðingum í miðstöð á vegum samtakanna Upbring New Hope, sem hafa starfað með börnum ólöglegra innflytjenda frá 2014.

Framkvæmdastjóri samtakanna, Kirk Senske, sagði að það hefði verið sannur heiður að kynna starfsemina fyrir forsetafrúnni. „Við komum fram við börnin eins og þau séu okkar eigin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert