Neita eftirlitsmönnum á vegum ÖSE inngöngu

Kosningar fara fram í Tyrklandi um helgina.
Kosningar fara fram í Tyrklandi um helgina. AFP

Tyrknesk stjórnvöld hafa meinað tveimur þingmönnum Svíþjóðar og Þýskalands inngöngu í landið, en þingmennirnir áttu að vera viðstaddir kosningarnar sem fara fram á sunnudaginn fyrir hönd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).

AFP-fréttaveitan greinir frá því að Andrej Hunko, þingmanni þýska vinstriflokksins Die Linke Party, hefði verið vísað frá borði flugvélar á leið frá Austurríki til Tyrklands örstuttu fyrir brottför af fulltrúa Tyrklands í ÖSE.

Hann var á leið til landsins til að vera viðstaddur kosningarnar líkt og hann hefur gert fyrir hönd stofnunarinnar undanfarin ár. 

Jabar Amin, þingmaður Græningja í Svíþjóð, hefur svipaða sögu að segja, en hann var kominn til Tyrklands þegar hann var stoppaður af. Honum er haldið á flugvellinum í Istanbúl og hyggjast tyrknesk stjórnvöld senda hann aftur til Stokkhólms.

„Þegar ég kom að vegabréfaeftirlitinu biðu þar mín öryggisverðir sem fylgdu mér afsíðis og tóku af mér vegabréfið,“ er haft eftir honum í frétt AFP. Sögðu öryggisverðir að þeir hefðu fengið fyrirmælin „að ofan“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert