Útvega rúm fyrir 20 þúsund börn

Stjórnvöld í Bandaríkjunum skoða hvort hægt sé að nýta herstöðvar …
Stjórnvöld í Bandaríkjunum skoða hvort hægt sé að nýta herstöðvar í suðurhluta landsins til að hýsa fjölda barna sem fara fylgdarlaus yfir landamærin frá Mexíkó, en sá hópur er mun fjölmennari en sá sem hefur verið aðskilinn frá foreldrum sínum. AFP

Heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna hefur falið bandaríska varnarmálaráðuneytinu að undirbúa móttöku allt að 20 þúsund barna sem hafa komið til landsins með ólöglegum hætti án fylgdarmanns.

AFP-fréttastofan hefur eftir ónefndum embættismanni að varnarmálaráðuneytið hefur verið „beðið um að styðja heilbrigðisráðuneytið með því að útvega 20 þúsund rúm.“

Beiðnin kemur í kjölfar undirritun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á tilskipun þess efn­is að fjöl­skyld­ur sem koma ólög­lega yfir landa­mær­in verði ekki leng­ur aðskild­ar. Alls hafa 2.342 börn verið tek­in frá 2.206 for­eldr­um frá 5. maí til 9. júní.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa einnig verið að skoða hvort hægt sé að nýta herstöðvar í suðurhluta landsins, þrjár í Texas og eina í Arkansas, til að hýsa fjölda barna sem fara fylgdarlaus yfir landamærin frá Mexíkó, en sá hópur er mun fjölmennari en sá sem hefur verið aðskilinn frá foreldrum sínum.

Í tilskipuninni sem Trump undirritaði í gær kemur fram að það sé á ábyrgð varnarmálaráðuneytisins að útvega húsnæði fyrir fjölskyldur ólöglegra innflytjenda, eða að byggja nýtt sé þörf á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert