Svarar gagnrýni með endurskoðun

„í gær voru það flóttamenn, í dag er það ég …
„í gær voru það flóttamenn, í dag er það ég en á morgun ert það þú," segir Roberto Saviano um stöðu mála á Ítalíu. AFP

Ítalski blaðamaðurinn Roberto Saviano, sem er gætt af vopnuðum vörðum allt frá því að bók hans Gomorra var gefin út árið 2006 tók innanríkisráðherra landsins til bæna í dag. Ástæðan var hótanir ráðherrans um að svipta blaðamanninn lögregluverndinni.

Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins og nýskipaður innanríkisráðherra, sagði í gær að það væri orðið tímabært fyrir yfirvöld að endurmeta þörfina fyrir því að vernda Saviano en hann hefur fengið ítrekaðar líflátshótanir af hálfu skipulagðra glæpasamtaka í landinu, mafíunni. 

„Ég sé ekki betur en að hann eyði miklum tíma erlendis,“ sagði Salvini í útvarpsviðtali og bætti við að nauðsynlegt sé að rannsaka hvernig fjármunum ítölsku þjóðarinnar er varið. 

Saviano hefur gagnrýnt popúlistaflokk Salvini harkalega og stefnu flokksins í málefnum innflytjenda. „Fáviti,“ segir Saviano í myndskeiði á Facebook-síðu sinni og segist vera alsæll með að vera talinn í flokki með óvinum Salvini.

Rithöfundurinn og blaðamaðurinn segir að andrúmsloftið á Ítalíu hafi versnað til muna eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum 31. maí. Hann varar við því í viðtali í dag að hver sem er geti orðið næsta skotmark stjórnvalda.

Saviano, sem er 38 ára gamall, er í viðtali við Corriere Della Sera í dag. Hann segir að ef Matteo Salvini vilji sýna sína verstu hliðar þá sé enginn öruggur, ekki hann, ekki innflytjendur. Enginn. „Í gær voru það innflytjendur. Í dag er það ég og á morgun þá ert það þú,“ segir hann í viðtalinu.

Ekki er langt síðan Salvini reitti marga til reiði þegar hann neitaði björgunarskipi um að koma til hafnar með 630 flóttamenn sem hafði verið bjargað undan ströndum Líbýu. „Við erum með innanríkisráðherra vill frekar setja fólk í hættu en að vernda það, segir Pier Luigi Bersani, einn af leiðtogum Demókrata- og framfaraflokksins (Democratici e Progressisti).

Frá því að Roberto Saviano hóf pennann á loft og lagði til atlögu við camorra, mafíuna í Napolí, hefur líf hans verið í hættu. Bókin Gómorra kom út í íslenskri þýðingu árið 2008 en hún vakti gríðarlega athygli um allan heim þegar hún kom út.

Roberto Saviano.
Roberto Saviano. Ljósmynd/piero tasso

Ástæðan var ekki sú að hann afhjúpaði hluti, sem enginn vissi, heldur sagði það, sem allir í kringum hann vissu, en þorðu ekki að segja upphátt. Saviano hefur fengið fjölda hótana. Mafíuforinginn Carmine Schiavone, kallaður Sandokan, lét þau boð ganga til Savianos að hann hefði verið dæmdur til dauða: „Þú munt deyja um leið og uppnámið í kringum þig fjarar út.“ En hann hefur ekki aðeins hrist upp í mafíunni, mörgum almennum borgurum finnst hann líka ganga of langt.

Saviano er með lífvörð allan sólarhringinn og er á faraldsfæti á milli lögreglustöðva og íbúða. Honum hefur verið líkt við flakkara í óvinalandi. Nánir ættingjar fara huldu höfði. Flugfélög hafa neitað að flytja hann og á veitingastöðum og hótelum er gripið til sérstakra ráðstafanna þegar hann kemur.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini.
Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini. AFP

Saviano lýsti fyrir nokkrum árum tilveru sinni sem víti, en hann getur þó ekki án verndarinnar verið. „Á hverjum morgni spyr ég mig hvers vegna ég hafi gert þetta og finn ekkert svar, veit ekki hvort það var þess virði,“ sagði Saviano eitt sinn. En hann vill líka vera þyrnir í auga þeirra, sem líkar ekki boðskapur hans.

Honum hefur ítrekað verið hótað að verndinni verði hætt en enginn lögregluforingi né stjórnmálamaður hefur látið til skarar skríða þar sem slíkar hugmyndir hafa fengið lítinn hljómgrunn meðal almennings, fólk farið út á götur og mótmælt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert