Einn látinn eftir handsprengjuárás

AFP

Einn er látinn og yfir hundrað manns slasaðir eftir handsprengjuárás sem gerð var á útifund þar sem nýr forsætisráðherra Eþíópíu, Abiy Ahmed, hélt ræðu í Addis Ababa í morgun. Ahmed hafði nýlokið erindi sínu þegar árásin átti sér stað.

Ahmed sagði sprengjuárásina vera tilraun andstæðinga hans til að sundra þjóðinni. Tugþúsundir manns sóttu fundinn sem var sá fyrsti þar sem Ahmed kemur fram opinberlega í höfuðborginni.

Skipuleggjandi viðburðarins sagði í samtali við fréttastofu AFP að flestir hefðu slasast í troðningnum sem myndaðist eftir að handsprengjan sprakk.

Starfsmannastjóri forsætisráðherra, Fitsum Arega, lofaði því á Twitter-síðu sinni að sökudólgarnir yrðu dregnir fyrir dóm.

Heilbrigðisráðherra Eþíópíu, Amir Aman, sagði á Twitter að 156 manns væru slasaðir og einn látinn.

Abiy Ahmed varð forsætisráðherra í febrúar þegar Hailemariam Desalegn sagði af sér í kjölfar mótmæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert