Bíll samgönguráðherra á reiðhjólarein

„Sumarskrifstofu Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra fyrir Framfaraflokkinn (FrP.), lagt kirfilega á …
„Sumarskrifstofu Ketil Solvik-Olsen, samgönguráðherra fyrir Framfaraflokkinn (FrP.), lagt kirfilega á reiðhjólarein í Ósló. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir myndina aldrei hafa átt að fara í birtingu. Ljósmynd/Facebook-síða norska samgönguráðuneytisins.

Norska samgönguráðuneytið var ekki lengi að fjarlægja mynd á Facebook-síðu ráðuneytisins, sem fylgdi pistli um „sumarskrifstofu“ samgönguráðherrans Ketil Solvik-Olsen, þegar lesandi benti á í athugasemd að skrifstofunni, fjölsæta bifreið með sportlegum reiðhjólum áfestum, var einmitt lagt á akrein sem ætluð er þeim síðarnefndu: reiðhjólum.

Þetta gerðist nú fyrir helgina og er myndin tekin í Ósló, en rífleg sekt, 900 norskar krónur, um 12.000 íslenskar, er sett til höfuðs þeim sem leggja, eða jafnvel bara stöðva, bifreið á reiðhjólaakreinum í Noregi en slíkar akreinar er að finna meðfram mörgum akbrautum í norskum borgum og bæjum enda Norðmenn mikið reiðhjólafólk og fer fjöldi fólks þar í landi allra sinna ferða hjólandi.

„Sumarskrifstofa“ Solvik-Olsen verður heimili hans næstu vikuna þegar hann ferðast um átta norsk fylki, heimsækir kjósendur og skoðar samgöngumál á hverjum stað, ræðir við notendur almenningssamgöngutækja og starfsfólk í samgöngukerfinu, en ferðalagið heitir „Sommerkontor på skinner og vei“, sumarskrifstofa á teinum og vegum.

„Frekar óheppilegt“

Það var skopmyndateiknarinn Anders Kvammen, sem einnig er þekktur hjólreiðamaður, sem skrifaði athugasemd við Facebook-færslu ráðuneytisins og benti á óheppilega stöðu sumarskrifstofunnar á miðri reiðhjólarein.

„Ég hef lengi gert mér rellu yfir bílstjórum sem leggja á reiðhjólareinunum,“ segir Kvammen í samtali við norska dagblaðið VG. „Það að sjálfur samgönguráðherra geri það líka er frekar óheppilegt. Ég vona bara að þetta hafi ekki verið hann sjálfur og að einhver úr starfsliði ráðuneytisins hafi gert þessa skráveifu.“

Henrik Jonassen, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, verður fyrir svörum þegar VG kannar hug þeirra ráðuneytismanna. „Þetta er auðvitað ekki í lagi. Bílstjórinn tók bara ekki eftir þessu, það var margt í gangi og aðstæður óvenjulegar. Þessi mynd hefði náttúrulega aldrei átt að fara í birtingu. Við föllum bara á kné og biðjumst innilega afsökunar,“ sagði Jonassen.

Frétt samgönguráðuneytisins um sumarferðalag ráðherra

Facebook-síða ráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert