Dóttirin fékk nafnið Neve

Jacinda Ardern með dóttur sína Neve í fanginu.
Jacinda Ardern með dóttur sína Neve í fanginu. AFP

 Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands, greindi frá því er hún yfirgaf fæðingardeild sjúkrahúss í Auckland að dóttir hennar hefði fengið nafnið Neve. Sagðist hún vonast til þess að einn daginn þætti það ekki tíðindum sæta að háttsettur stjórnmálamaður eignaðist barn.

Dóttir Ardern kom í heiminn á fimmtudag. Ardern segir að hún og maður hennar, Clarke Gayford, hafi komist að þeirri niðurstöðu að nefna stúlkuna, sem er þeirra fyrsta barn, fullu nafni Neve Te Aroha Ardern Gayford. 

„Við völdum Neve einfaldlega af því að við kunnum vel við það og þegar við sáum hana í fyrsta sinn fannst okkur það nafn passa henni vel,“ sagði forsætisráðherrann í samtali við blaðamenn fyrir utan sjúkrahúsið með dóttur sína í fanginu.

Neve þýðir björt og geislandi og Te Aroha er nafn á smábæ suðaustur af Auckland en þaðan er fjölskylda Ardern.

Forsætisráðherrann, sem er 37 ára, segist agndofa yfir öllum þeim heillaóskum sem hafi borist bæði frá Nýsjálendingum sem og fólki um allan heim. M.a. sendi Elísabet Englandsdrottning henni kveðju sem og Harry prins og Meghan eiginkona hans.

„Við viljum þakka Nýsjálendingum fyrir allan stuðninginn og segja að allt gengur virkilega vel. Við erum vansvefta en líður mjög vel,“ sagði hún. 

Ardern er aðeins annar þjóðhöfðingi heimsins til að fæða barn á meðan hún gegnir embætti. Sá fyrsti var Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans. Hún vonast til þess að slíkt þyki ekki óvenjulegt í framtíðinni. 

Jacinda Ardern ásamt eiginmanni sínum Clarke Gayford á sjúkrahúsinu í …
Jacinda Ardern ásamt eiginmanni sínum Clarke Gayford á sjúkrahúsinu í Auckland. AFP

„Ég vona að það verði almennt samþykkt, ekki aðeins að kona hafi val heldur karlmenn líka,“ sagði hún og vísaði til Gayford sem stóð við hlið hennar. Hann er fertug sjónvarpsstjarna en tekur sér nú leyfi frá störfum til að vera heimavinnandi. Ardern ætlar að taka sex vikna fæðingarorlof. „Clarke hefur verið jafnmikil fyrirmynd í þessu og ég og það hefur einnig vakið athygli. Svo ég vona, lítilla stúlkna og drengja vegna, að í framtíðinni geti þau tekið ákvarðanir um hvernig þau ala upp börn sín og hvernig þau stunda vinnu, að það geti tekið þá ákvörðun byggða á því sem þau vilja og því sem færir þeim hamingju.“

Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, segir parið vera að senda mikilvæg skilaboð til heimsins og veita mörgu ungu fólki innblástur.

Ardern varð forsætisráðherra í október, aðeins þremur mánuðum eftir að hún tók við formennsku Verkamannaflokksins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert