„Hvar eru börnin?“

„Hvar eru börnin?“ hrópa nokkrar konur í kór í gegnum veggi klefa sinna í búðunum. „Við viljum að börnin fái frelsi!“

Fyrir utan búðirnar standa stuðningsmenn þeirra, fólk sem er miður sín yfir því að bandarísk stjórnvöld hafa aðskilið börn frá foreldrum sínum við landamærin að Mexíkó. „Heyrið þið til okkar? Hvað getum við gert fyrir ykkur?“ spyrja þeir og beina orðum sínum til kvennanna sem eru í haldi þar til mál þeirra fara í gegnum strangt og langt ferli bandarískra yfirvalda. 

Þannig voru samskiptin í stórum dráttum milli stuðningsmannanna og fólksins í búðunum í Otay Mesa á landamærunum í gær. 

Fólkið sem er í haldi var aðskilið frá börnum sínum í samræmi við innflytjendastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hefur „ekkert umburðarlyndi“ að slagorði.

Mótmælendur við búðirnar í Otay Mesa.
Mótmælendur við búðirnar í Otay Mesa. AFP

Á miðvikudag skrifaði forsetinn undir tilskipun sem er ætlað að koma í veg fyrir aðskilnað barna frá foreldrum sínum en þá þegar höfðu um 2.300 börn verið tekin úr örmum mæðra sinna og feðra og sett í sérstakar búðir. 

„Skammist ykkar,“ var meðal þess sem stuðningsmennirnir, sem voru um 500 talsins, hrópuðu fyrir utan búðirnar í gær. 

„Ég veit að þessar fjölskyldur þjást og það er mjög erfitt að sjá að börn hafa verið látin þola það áfall sem fylgir því að fara í búðir þegar þau eru aðeins tíu eða fimm ára gömul,“ segir  Erica Leyva sem ók frá Los Angeles til að sýna stuðning sinn í verki.

Þó að Leyva hafi fæðst í Bandaríkjunum var hún í stuttan tíma í haldi yfirvalda er hún var fjögurra ára vegna þess að foreldrar hennar voru ekki skráðir í landinu. „Ég man hver tilfinningin var að vera á bak við lás og slá,“ segir hún. 

Einkafyrirtæki rekur búðirnar í Otay Mesa fyrir bandarísk yfirvöld. Þar er sagt pláss fyrir 1.500 fanga en í janúar kom fram í fjölmiðlum að fjölga ætti fólki í búðunum um 30%. 

Innflytjendayfirvöld í Bandaríkjunum svöruðu ekki fyrirspurn AFP-fréttastofunnar um búðirnar er eftir því var leitað.

Öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris heimsótti nokkrar konur sem haldið er í búðunum á föstudag. Þær höfðu allar verið aðskildar frá börnum sínum. „Þær sögur sem þær deila með mér draga upp mynd af mannréttindabrotum sem eru framin af ríkisstjórn okkar. Við erum betri en þetta.“

Mótmælendurnir við búðirnar í gær drógu borða yfir nafn búðanna í gær og á honum stóð „fangabúðir“. Þá lögðu þeir tuskudýr og leikföng umhverfis byggingarnar. 

Presturinn Men McBride leiddi bænastund áður en hópurinn fór að girðingunum umhverfis búðirnar. Við girðingarnar stóðu verðir vopnaðir piparúða. 

Mótmælendur í San Diego í Kaliforníu.
Mótmælendur í San Diego í Kaliforníu. AFP

Gaddavír er á hliði búðanna og þar hengdu mótmælendurnir upp barnaskó og lykla og kröfðust þess þannig með táknrænum hætti að börnunum yrði sleppt úr haldi og sameinaðir foreldrum sínum að nýju.

„Sleppið þeim!“ hrópaði fólkið. „Án réttlætis verður ekki friður!“

„Þetta er ósiðlegt,“ sagði presturinn við starfsmenn búðanna. 

Apolonia Gregorio Jeronimo, 33 ára, var ásamt tveimur börnum sínum að heimsækja eiginmann sinn í búðirnar. Hann var handtekinn fyrir hálfu ári og á á hættu að vera vísað úr landi í ágúst.

„Ég þakka ykkur fyrir stuðninginn,“ sagði hún og greindi frá því að eiginmaður hennar hefði flúið undan ofbeldi glæpahópa í Gvatemala. „Hann er örvæntingarfullur. Hann er viss um að þeir drepi hann.“

Sjálf kom hún til Bandaríkjanna sem barn og þrátt fyrir að hafa komið þá ólöglega til landsins nýtur hún verndar vegna hins svonefnda DACA-verkefnis.

„Að sækja um hæli er enn löglegt,“ sagði mótmælandi sem var í hópi 1.500 manna sem mótmæltu í San Diego í gær. „Það verður að halda fjölskyldum saman.“

Og margir mótmæltu þeirri áletrun sem var á jakka forsetafrúarinnar Melaniu Trump er hún heimsótti búðir flóttabarna fyrir helgi en á honum stóð stórum stöfum: „Mér er í raun alveg sama. En þér?“ Mótmælendur höfðu skrifað annars konar skilaboð á sínar yfirhafnir: „Mér stendur ekki á sama. En þér?“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert