Kjósa þing og forseta í dag

Tyrkir hófu að streyma á kjörstaði í morgun en í dag fara fram bæði forseta- og þingkosningar í landinu. Útlit er fyrir að Recep Tayyip Erdogan haldi völdum en vinsældir hans hafa þó dalað vegna efnahagsþrenginga í landinu. Þá hefur nýju lífi verið blásið í stjórnarandstöðuna. 

Flokkur Erdogans komst fyrst til valda árið 2002 og því fylgdu miklar breytingar, margar hverjar í lýðræðisátt. En síðustu misseri hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir að troða á mannréttindum og sýna einræðistilburði á ýmsa vegu.

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan 5 í morgun og lokar klukkan 14 að íslenskum tíma. Fyrstu talna er að vænta í kvöld. 

Kosningaseðlarnir í Tyrklandi í dag eru tveir.
Kosningaseðlarnir í Tyrklandi í dag eru tveir. AFP

Þetta er í fyrsta sinn sem Tyrkir kjósa samtímis til forseta og þings en 56 milljónir eru á kjörskrá. Um fyrstu umferð forsetakosninganna er að ræða og benda skoðanakannanir til þess að staða Erdogans sé ekki í hættu. Þá hefur einnig verið talið líklegt að Lýðræðis- og framþróunarflokkur hans fái meirihluta á þinginu. 

En ekkert er þó fast í hendi því stjórnarandstaðan hefur fengið töluverðan byr í seglin undir forystu Muharrem Ince og CHP-flokksins. Hundruð þúsunda manna hafa mætt á  kosningafundi að undanförnu.

Önnur umferð forsetakosninganna er ráðgerð 8. júlí. Þó að líklegt sé að hann haldi völdum þykir ljóst að vinsældir hans hafa dalað töluvert frá því að hann boðaði skyndilega til kosninganna, einu og hálfu ári áður en kjörtímabilið var úti.

Stuðningsmenn forsetaframbjóðandan Muharrem Ince hafa fjölmennt á kosningafundi hans síðustu …
Stuðningsmenn forsetaframbjóðandan Muharrem Ince hafa fjölmennt á kosningafundi hans síðustu daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert