Upplýstu 30 ára gamalt morðmál

Michella Welch var myrt árið 1986. Talið er að morðingi …
Michella Welch var myrt árið 1986. Talið er að morðingi hennar sé loks fundinn.

Lífsýni á servíettu veitingastaðar var notað til að bera kennsl á þann sem grunaður er um að hafa drepið tólf ára stúlku í Tacoma í Washington-ríki árið 1986. Hinn 66 ára gamli Gary Hartman var í kjölfarið handtekinn og hefur verið ákærður fyrir að nauðga og myrða Michellu Welch. Greindi lögreglan frá þessu á blaðamannafundi fyrir helgi. Hartman verður leiddur fyrir dómara á morgun.

Lögreglan segir að Michella Welsh og tvær yngri systur hennar hafi farið í Puget-almenningsgarðinn að morgni dags þann 26. mars árið 1986. Michella hafi svo farið heim á hjólinu sínu til að sækja hádegismat. Á meðan fóru systur hennar inn í fyrirtæki í nágrenninu til að komast á klósettið. Er þær snéru til baka sáu þær ekki systur sína og héldu áfram að leika sér. Þær komu svo auga á hjólið og nestið sem Michella hafði sótt heim til þeirra. Stúlkurnar létu móður sína vita og haft var samband við lögregluna.

Héldu að málin væru tengd

Lögreglan segir að lík Michellu hafi svo fundist um kvöldið ofan í skurði nokkru frá þeim stað þar sem hún var að leik með systrum sínum. Ljós var að Michella hafði verið beitt kynferðisofbeldi og svo drepin.

Rannsókn lögreglunnar leiddi ekkert í ljós og enginn var handtekinn vegna morðsins. Nokkrum mánuðum síiðar var önnur stúlka, Jennifer Bastian, drepin. Í fyrstu hélt lögreglan að málin tengdust, sagði lögreglustjórinn Dom Ramsdell sem var ungur lögreglumaður á þessum tíma. Lífsýni fundust en engin niðurstaða fékkst í gagnagrunnum lögreglunnar.

En árið 2016 ákvað sérsveit lögreglunnar í Tacoma, sem vinnur að því að leysa gömul mál, að leita til erfðafræðinga og með þeirra hjálp var hægt að nota DNA-niðurstöðurnar til að tengja við ættingja hins grunaða. Lögreglan þrengdi hringinn við tvo bræður og var Hartman annar þeirra. Lögreglumaður elti hann eitt sinn inn á veitingastað. Þar notaði hann servíettu til að þurrka sér um munninn og henni náði lögreglumaðurinn svo. Servíettan var send til rannsóknar og í ljós kom að lífsýni á henni pössuðu við þau sem fundust höfðu á vettvangi morðsins á Michellu Welch.

Hins vegar kom í ljós að morðin á stúlkunum tveimur voru ekki framin af sama manninum. Lögregla hefur hins vegar einnig handtekið mann sem grunaður er um morðið á Jennifer Bastian. Sömu aðferðum var beitt til að finna hann. 

Frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert