Vilhjálmur kominn til Mið-Austurlanda

Hussein bin Abdullah, krónprins Jórdaníu, tók á móti Vilhjálmi á …
Hussein bin Abdullah, krónprins Jórdaníu, tók á móti Vilhjálmi á flugvellinum. AFP

Vilhjálmur Bretaprins er kominn til Jórdaníu í sögulegri heimsókn sinni sem nú er hafin í Mið-Austurlöndum. Hann er sá fyrsti úr bresku konungsfjölskyldunni sem fer í opinbera heimsókn bæði til Ísraels og Palestínu.

Tekið var á móti Vilhjálmi á flugvelli í Amman af Hussein bin Abdullah, krónprinsi Jórdaníu. Vilhjálmur mun dvelja í landinu í hans boði í tvo sólarhringa. 

Vilhjálmur kom til Jórdaníu í vél breska flughersins og lenti á herflugvelli í austurhluta Amman. Þar steig hann út á rauðan dregil. 

Mörg fyrirmenni, s.s. borgarstjóri Amman og erlendir erindrekar, voru viðstaddir. 

Síðar í vikunni mun hann fara til Ísraels sem og Palestínu. Hann mun eiga fundi með bæði forsætisráðherra Ísraels og forseta Palestínu.

Í tilkynningu frá Kensington-höll er undirstrikað að heimsókn Vilhjálms sé ekki pólitísks eðlis. Hins vegar er ljóst að samskipti Ísraela og Palestínumanna eru mjög viðkvæm nú um stundir eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að flytja bandaríska sendiráðið til Jerúsalem.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert