Fékk hreinan meirihluta

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, hlaut hreinan meirihluta í forsetakosningunum í gær en hann fékk 53% atkvæða. Muharrem İnce fékk 31% atkvæða en aðrir frambjóðendur mun minna. Erdoğan mun því gegna embætti forseta næstu fimm árin.

Talsverður styr hefur staðið um Erdoğan undanfarin ár, ekki síst fyrir hörku í garð stjórnarandstæðinga, og er talið að um 160 þúsund manns hafi verið fangelsaðir á undanförnum árum. 

Efnahagur landsins hefur hins vegar batnað mjög og yfirvöld hafa fjárfest í innviðum, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntun. 

Einn þeirra sem hafa fagnað niðurstöðu kosninganna er Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Hann sendi starfsbróður sínum kveðju í morgun og segir Erdoğan njóta mikils trausts bæði heima fyrir og hjá alþjóðasamfélaginu. 

İnce, leiðtogi Lýðræðisflokksins CHP, ætlar að ávarpa stuðningsmenn sína fljótlega.

Samhliða forsetakosningum var kosið til þings, en það er í fyrsta sinn sem kjörseðlar í þing- og forsetakosningum eru settir í sama kjörkassa. Í þingkosningunum hlaut flokkur Erdogans, Réttlætis- og þróunarflokkurinn AKP, rúmlega 42% atkvæða. Þá hlaut Þjóðernisflokkurinn MHP 12% atkvæða en hann hefur myndað meirihluta ásamt flokki Erdogans undanfarin ár. Alls hlaut núverandi stjórnarmeirihluti því um 54% atkvæða.

„Niðurstaða nýafstaðinna kosninga er mjög skýr. Þjóðin hefur veitt mér áframhaldandi umboð til að takast á við verkefni og skyldur forsetaembættisins,“ sagði Erdogan þegar úrslitin lágu ljós fyrir. Að því er fram kemur á vef AFP lýsti Erdogan einnig yfir sigri í þingkosningunum en líkt og fyrr segir hélt stjórnarmeirihlutinn í kosningunum.

Talsvert hefur gustað um Erdogan síðustu ár, en einungis tvö ár eru frá valdaránstilraun í landinu. Í kjölfar tilraunarinnar lýsti Erdogan yfir neyðarástandi í landinu, sem stendur enn. Það hefur gert honum kleift að setja lög án samþykkis frá tyrkneska þinginu.

Þá hefur hann verið sakaður um að reyna að hefta frelsi fjölmiðla. Þess utan hefur hann sýnt af sér einræðistilburði sem farið hafa vaxandi undanfarin ár, en í Tyrklandi er tala blaðamanna sem haldið er föngnum hærri en á nokkrum öðrum stað í heiminum.

Erdogan hefur verið við völd í Tyrklandi frá árinu 2002, fyrst sem forsætisráðherra og síðar sem forseti. Hann boðaði heldur óvænt til kosninga fyrr á þessu ári, rúmu ári á undan áætlun. Talið er að það hafi verið vegna góðrar stöðu flokks hans í skoðanakönnunum auk þess sem það gæfi andstæðingum hans skemmri tíma til undirbúnings. Segja má að tilraun Erdogans hafi heppnast vel en líkt og fyrr segir var hann endurkjörinn og flokkur hans er enn í stjórnarmeirihluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert